John Obi Mikel, leikmaður nígeríska landsliðsins, fékk hræðilegar fréttir fyrir leik liðsins gegn Argentínu á HM.
Mikel er fyrirliði nígeríska landsliðsins en liðið datt úr keppni eftir 2-1 tap gegn Argentínu í lokaleik sínum í riðlinum.
Mikel hefur nú opnað sig varðandi mál föður síns en honum var rænt áður en flautað var til leiks gegn Argentínu.
Ræningarnir hótuðu Mikel öllu illu ef hann myndi ræða við blöðin og heimtuðu að fá 28 þúsund dollara ef faðir hans ætti að snúa heill heim.
Faðir leikmannsins var á leið í jarðarför í heimalandinu er ráðist var að honum en var bjargað af lögreglunni um viku síðar.
,,Ég var svo ringlaður, ég vissi ekki hvað ég átti að gera en ég vissi að ég gæti ekki brugðist þeim 180 milljónum sem fylgdust með í Nígeríu,“ sagði Mikel.
,,Ég þurfti að loka á þetta og setja þjóðina fyrst. Mér var sagt að þeir myndu skjóta föður minn ef ég myndi tilkynna þetta mál til lögreglunnar eða tala við einhvern.“
,,Ég vildi ekki ræða þetta við þjálfarann því þetta hefði truflað liðið á mjög mikilvægum degi.“