Ísland leikur sinn mikilvægasta leik í mörg ár þegar liðið mætir Króatíu í Rostov-On-Don í lokaleik riðlakeppninnar í kvöld. Sérfræðingar ESPN hafa í gegnum keppnina spáð í spilin hvern leikdag og er dagurinn í dag engin undantekning. Um er að ræða reynda íþróttafréttamenn og þó þeir séu ekki óskeikulir hafa þeir talsvert vit á sportinu.
Eðli málsins samkvæmt eru augu okkar á D-riðli en í hinum leik riðilsins leika Nígería og Argentína. Sérfræðingar ESPN, sem eru tíu talsins, eru flestir á því að Argentína hafi betur. Sjö þeirra spá Argentínu sigri, tveir telja að jafntefli verði niðurstaðan en aðeins einn velur nígerískan sigur.
Þá er röðin komin að leik Íslands og Króatíu. Sérfræðingar ESPN eru svartsýnir fyrir okkar hönd; sex þeirra spá Króatíu sigri en fjórir spá jafntefli. Einn þeirra spáir meðal annars 4-0 sigri Króatíu. Enginn á von á því að Ísland vinni Króatíu, sem er sérstakt í ljósi þess að Króatía er komin áfram, þeir ætla að hvíla lykilmenn, Ísland vann síðasta leik þjóðanna og er auk þess með bakið upp við vegg í riðlinum og þarf á sigri að halda. Í slíkum aðstæðum erum við oftast best.
Spána má sjá hér að neðan en hana ber að taka með fyrirvara, enda aðeins til gamans gerð. Það er bara að vona að hinir svokölluðu sérfræðingar hafi rangt fyrir sér.