Sagnfræðingurinn og íþróttaáhugamaðurinn Stefán Pálsson var gestur Íþróttavikunnar sem kemur út á 433.is, Hringbraut.is og í Sjónvarp Símans alla föstudaga. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum.
Karlalandsliðið í handbolta hefur lokið leik á Evrópumótinu en heilt yfir olli það miklum vonrbigðum.
„Þetta var skrýtið. Það var furðulegur taktur í þessu öllu saman. Við förum inn í mótið upptekin af því að við séum fljótasta lið í heimi að refsa fram á við og svo sjáum við ekkert af því fyrr en eftir dúk og disk,“ sagði Stefán.
Hrafnkell horfir á björtu hliðarnar.
„Mér fannst við rífa okkur í gang eftir því sem leið á mótið. Ég sá alveg bjarta punkta í þessu.“
Það vill verða á svona mótum að lykilmenn séu tæpir vegna meiðsla, eins og Gísli Þorgeir Kristjánsson á þessu móti. Hann hafði verið lengi frá. Stefáni þykir þetta athyglisvert.
„Menn eru alltaf meiddir með sínum félagsliðum en menn láta tjasla sér saman rétt fyrir stórmót með landsliðinu. Ég væri brjálaður ef ég væri gjaldkeri hjá félagsliði. Eru að halda uppu leikmönnum sem eru bara heilir á stórmóti landsliðsins,“ sagði hann áður en Hrafnkell tók til máls á ný.
„Mesta áskorun Snorra í framhaldinu er að finna réttu blönduna. Hann þarf að skilja einhverja stóra leikmenn eftir fyrir utan. Ég sé ekki Hauk, Janus og Gísla alla saman á næsta stórmóti.“
Umræðan í heild er í spilaranum.