Áramótaþáttur Íþróttavikunnar var af dýrari gerðinni þetta árið. Kristján Óli Sigurðsson og Hörður Snævar Jónsson mættu sem gestir í þáttinn sem Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa stýrt í vetur.
Í þættinum voru veitt hin ýmsu verðlaun og þá var farið yfir allt það helsta úr íþróttalífinu hér á landi sem og erlendis á árinu 2023.
Rætt var um úrslitakeppnina í Olís-deild karla í vor en ÍBV stóð að lokum uppi sem sigurvegari. Vann liðið Hauka í úrslitaeinvíginu en Haukar höfðu hafnað í áttunda sæti deildarinnar.
„Það var bara galið. Vissulega voru Haukar án margra lykilmanna í byrjun tímabils en svo náðu þeir öllum saman og hlóðu í mjög góða úrslitakeppni. Þeir voru ekki mjög langt frá því að vinna þetta bara,“ sagði Hrafnkell.
„Þetta var verðskuldað. Eyjamenn voru á þessum tíma með langbesta leikmanninn í deildinni, Rúnar Kárason. Hann fór því miður af fjölskylduástæðum en hann tekur þessa úrslitakeppni og græjar hana,“ sagði Hörður áður en Hrafnkell tók til máls á ný.
„Hefði Valur verið með alla heila út tímabilið hefðu þeir hakkað þetta.“
Umræðan í heild er í spilaranum.