Íþróttavikan heldur áfram að rúlla á 433.is og í Sjónvarpi Símans undir hlekk Hringbrautar. Nýr þáttur kemur út alla föstudaga. Gestur þeirra Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar að þessu sinni var fjölmiðlastarnan Tómas Steindórsson.
Það hefur verið hiti í körfuboltasamfélaginu vegna komu Tynice Martin til kvennaliðs Njarðvíkur í sumar. Hún er með dóm á bakinu fyrir heimilisofbeldi frá því árið 2019. Fékk hún hann fyrir ofbeldi gegn fyrrverandi kærustu sinni ásamt annarri konu.
Tók Martin út eins árs skilorðsbundinn fangelsisdóm.
„Það eru fjölmörg fordæmi fyrir því að dæmdir ofbeldismenn spili í efstu deild í körfu, það er ekkert nýtt. Ég er alveg þar að ef hún hefur tekið út sinn dóm megi hún alveg spila hérna,“ sagði Tómas um málið.
Hrafnkell tók til máls.
„Þegar þú ert búinn að taka út þinn dóm áttu að fá að byrja upp á nýtt. Hún er körfuboltaleikmaður og vill starfa við það, þá á að leyfa henni það.“
Helgi tók í svipaðan streng.
„Þetta er svolítið það sem réttarkerfið snýst um, menn taka út sinn dóm og áfram gakk.“
Umræðan í heild er í spilaranum.