fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Sport

Landliðsmenn hafa gefið mikið af sér síðasta árið

Styttist í stórleik við Króatíu – Undirbúningur að hefjast

Einar Þór Sigurðsson
Laugardaginn 20. maí 2017 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er stutt í stóra daginn, þann 11. júní, þegar Ísland og Króatía munu eigast við í undankeppni fyrir heimsmeistaramótið í Rússlandi. Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli og sigri íslenska liðið leikinn er liðið komið í góða stöðu. Króatía er á toppi riðilsins með 13 stig en Ísland jafnar þá með sigri. Tölfræðin er þó ekki með íslenska liðinu enda hefur Íslandi ekki tekist að sigra í þremur viðureignum liðanna á síðustu árum.

„Þessi leikur snýst í rauninni um hvort við ætlum að berjast um fyrsta sætið í riðlinum. Með sigri þá jöfnum við þá að stigum og þá gefur það okkur möguleika á fyrsta sætinu. Ef þeir vinna og verða sex stigum á undan okkur, með betri markatölu, þá verður þetta erfitt. Þá verða þeir að misstíga sig í þremur af fjórum síðustu leikjunum og það er ólíklegt. Við höldum möguleikanum á fyrsta sætinu opnum með sigri og það myndi gera leikina í september og október enn skemmtilegri. Miðað við allan þennan mótvind eftir Evrópumótið í Frakklandi þá væri geggjað að vera í baráttu um efsta sætið í riðlinum eftir rúmlega hálft mót,“ sagði Heimir Hallgrímsson þjálfari Íslands í samtali við DV á fimmtudag.

Undirbúningur íslenska landsliðsins hefst á laugardag þegar Heimir, Helgi Kolviðsson og Sebastian Boxleitner, styrktarþjálfari liðsins, hitta Birki Bjarnason. Fleiri leikmenn koma svo til skoðunar á næstu dögum en tímabilið er búið hjá nokkrum leikmönnum og langt er í leikinn. Heimir og félagar ætla því að hjálpa leikmönnum að halda sér í formi fram að leik. Liðið kemur svo allt saman 5. júní.

„Við erum að fara að byrja að hitta leikmennina núna á næstu dögum og aðeins að meta þá og sjá stöðuna á þeim sem eru búnir með sína deild. Það fara næstu dagar í að meta það og sjá hvernig stand er á leikmönnum, hvort við þurfum að bæta einhverju við hjá sumum eða bara halda þeim við. Birkir Bjarnason er ekki búinn að spila lengi og kannski þurfum við að keyra hann aðeins upp, Aron Einar og Jón Daði þurfa líklega bara að halda sér við og Hörður Björgvin er þarna mitt á milli. Sebastian sér um þetta með okkur og við setjum upp plan fyrir hvern einn. Svo heldur maður áfram að fylgjast með þeim sem eru að spila. Þetta er ekki alveg óskastaða hjá okkur núna, það eru óvenjumargir leikmenn sem eru ekki að spila hjá sínu félagsliði. Margir lykilmenn okkar hafa spilað lítið.“

Andlega hliðin mikilvæg

Síðasta ár hefur verið erfitt fyrir íslensku leikmennina en lítið sem ekkert sumarfrí síðasta sumar vegna þátttöku á EM í Frakklandi hefur tekið mikið á menn líkamlega og andlega. „Það er samt mjög mikilvægt líka að menn fái frí, allur undirbúningur okkar fyrir þennan leik mun miða að því að hafa þetta létt og skemmtilegt. Menn eru búnir að gefa mikið af sér þetta síðasta ár, við reynum að hafa þetta eins líflegt og hægt er. Það er alveg jafn mikilvægt að gefa frí eins og það er að æfa á þessum tímapunkti. Það er mikilvægt að hafa menn andlega tilbúna, yfirleitt gerist það nú sjálfkrafa því það er alltaf líf og fjör þegar strákarnir hittast í þessum landsleikjavikum og ég hef því litlar áhyggjur af þeim hluta. Við þurfum að varast að vera of metnaðarfullir í æfingum því hvíldin á þessum árstíma skiptir meira máli en á öðrum.“

Margir lykilmenn ekki að spila

Síðustu mánuðir hafa verið flóknari fyrir Heimi en þeir voru hér fram að EM, þá voru lykilmenn liðsins alltaf heilir og gátu spilað alla leiki. Nú hafa hins vegar komið upp meiðsli og Heimir hefur þurft að skapa meiri breidd í hópinn. Hann segir að það sé eðlilegra að meiðsli séu til staðar en ekki, eins og staðan var oft. „Strákarnir hafa alltaf fengið að hafa áhrif á álagið í landsliðsverkefnum. Þeir vita hvað er best fyrir þá og við hlustum á það, þetta eru atvinnumenn og hafa alltaf verið faglegir í þessum málum. Við erum með færri leikmenn í meiðslum núna en áður, það sem er óvenjulegra er að margir lykilmenn eru lítið að spila. Kári Árnason hefur átt við meiðsli að stríða og sömu sögu er að segja af Ara Frey. Jóhann Berg og Birkir Bjarnason eru svo að stíga upp úr meiðslum, stærsta spurningin er varðandi Birki og við skoðum hvort hann sé maður í leik gegn Króötum.

Þetta var í rauninni lygilegt hvernig þessi fjögur ár voru hjá okkur fram að Evrópumótinu, það var nánast alltaf sama byrjunarliðið. Staðan í dag er í raun líkari eðlilegu ástandi. Ég get viðurkennt að þetta hefur reynt aðeins á, Ísland vinnur leikina sína á góðri liðsheild og endurtekið sama byrjunarlið styrkir hana. Allir leikmenn þekkja þá styrkleika og veikleika hver annars og breyting myndar oft óvissu. Þetta er samt eðlilegt ástand, hitt var í raun óeðlilegt. Við tókum meðvitaða ákvörðun fyrir tveimur árum um að gefa öðrum leikmönnum æfingarleikina til að auka breiddina. Sú ákvörðun var góð, breiddin hefur aukist og það eru fleiri leikmenn sem geta valdið þessum hlutverkum. Við treystum fleiri leikmönnum í dag.“

„Við verðum að leika vel og nánast eiga hinn fullkomna leik til að vinna þá.“

Króatíugrýla

Íslenska liðið er farið að þekkja vel til Króatíu eftir leikina undanfarið, í fyrri leiknum í þessum riðli tapaði Ísland 2-0 í Zagreb en leikurinn hjá íslenska liðinu var vel spilaður og liðið óheppið að taka ekki stig úr þeim leik. Lið Króatíu er afar vel mannað og liðið eitt það besta í knattspyrnunni í dag. „Við búum að mikilli reynslu af leikjum við Króatíu, þetta eru þrír leikir á þremur árum.

Þeir hafa góða leikmenn og ef maður skoðar hvar þeir eru að spila, þá fæst það staðfest. Þeir voru með fjóra leikmenn í undanúrslitum Meistaradeildarinnar, þeir eru með markmann í Monaco, framherja í Juventus, tvo miðjumenn í Real Madrid, miðjumann í Barceona. Þessir menn eru að spila mjög vel og eru að toppa sig á þessum tímapunkti. Þeir eru með frábæra einstaklinga sem mynda gott lið. Við verðum að leika vel og nánast eiga hinn fullkomna leik til að vinna þá. Við náðum svolítið að núlla þá út með góðum varnarleik í Króatíu en það bitnaði á sóknarleiknum okkur.“

Warnock velur ekki íslenska landsliðið

Neil Warnock, stjóri Cardiff þar sem fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson spilar, hefur verið að senda Heimi pillur síðustu mánuði. Warnock gagnrýndi Heimi fyrir að halda Aroni í 90. mínútur í landsleik gegn Írlandi á dögunum og þá gagnrýndi hann Heimi og KSÍ fyrir að vilja fá Aron snemma til æfinga fyrir leikinn mikilvæga gegn Króatíu. „Ég skil að Neil Warnock vilji vinna sína leiki sem stjóri Cardiff en við viljum vinna okkar leiki. Hann velur ekki íslenska landsliðið og ég vel ekki liðið hjá Cardiff. Ég hef ekki ástæðu til þess að vera að sverta hann eða skoðanir hans í blöðum. Hann er með pressu á sínum herðum í sínu starfi og vill að sínir leikmennirnir komi ferskir úr landsleikjafríi sem er mótsögn í sjálfu sér.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Ótrúleg myndbönd birtast – Stútuðu knæpu eftir gleðitíðindin og einn girti niðrum sig í miðri ræðu

Ótrúleg myndbönd birtast – Stútuðu knæpu eftir gleðitíðindin og einn girti niðrum sig í miðri ræðu
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum
Leikmenn Arsenal í rusli
433Sport
Fyrir 23 klukkutímum

Adam birtir myndir af skónum hans Arons með æluna upp í háls

Adam birtir myndir af skónum hans Arons með æluna upp í háls
433Sport
Fyrir 23 klukkutímum

Hörmulegar vítaspyrnur kostuðu City – Real Madrid komið í undanúrslit

Hörmulegar vítaspyrnur kostuðu City – Real Madrid komið í undanúrslit