fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024

Stolin milljónaverk sem ekki hafa fundist

Bíræfnir bófar reyna að verða sér út um skjótfenginn gróða

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 9. mars 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gegnum aldirnar hafa listaverk oftar en ekki verið bófum hugleikin, reyndar oftast sem leið að skjótfengnum gróða. Ógrynni verðmætra listaverka hefur verið stolið í gegnum tíðina og virðist ekkert verk vera óhult.

Þannig var frægasta málverki heims, Monu Lisu eftir Leonardo da Vinci, stolið af Louvre-safninu í París árið 1911 en það var endurheimt tveimur árum síðar. The Boy in the Red Vest eftir Cézanne var stolið árið 2008 en endurheimt árið 2012 og Ópinu eftir Edvard Munch hefur tvisvar verið stolið, árin 1994 og 2004, en í bæði í skiptin var verkið endurheimt stuttu síðar. Svo eru það verkin, hvort heldur sem er málverk eða önnur listaverk, sem var stolið en hafa aldrei fundist. Hér má sjá nokkur af þekktustu dæmunum.


Ómetanleg fiðla

Stradivarius-fiðlur eru í raun eins og hinn heilagi kaleikur fyrir þá sem hafa atvinnu af fiðluleik. Í október árið 1995 var brotist inn á heimili Ericu Morini í New York. Erica þessi var mjög virtur fiðluleikari og átti hún eina Stradivarius-fiðlu sem var smíðuð árið 1724. Fiðlunni var stolið í innbrotinu ásamt öðrum verðmætum, en um þetta leyti lá Erica fyrir dauðanum á sjúkrahúsi. Hún var 91 árs og lést nokkrum dögum síðar. Fiðlan var á sínum tíma metin á nokkrar milljónir Bandaríkjadala og hefur hún enn ekki fundist. Talið er að um 500 Stradivarius-fiðlur séu til í heiminum.


Endaði hún í ruslinu?

Þann 20. maí árið 2010 var brotist inn á listasafn í París, Musée d’Art Moderne de la Ville de Paris, og fimm listaverkum stolið. Eitt þeirra var verkið Le Pigeon Aux Petits Pois frá árinu 1911 eftir Pablo Picasso. Það einkennilega er að innbrotið virðist ekki hafa verið sérstaklega vel skipulagt. Rúða hafði verið brotin og eftirlitsmyndavélar sýndu að einn maður var að verki. Nokkru síðar var maður handtekinn vegna innbrotsins og hann dæmdur árið 2011. Hann sagði fyrir dómi að hann hefði hent listaverkunum í ruslið skömmu eftir að hafa stolið þeim. Framburður mannsins var ekki talinn sérstaklega trúverðugur, en hvað sem því líður hafa verkin ekki fundist. Talið er heildarverðmæti verkanna hafi numið 120 milljónum dala, tæpum 13 milljörðum króna.


Stolið af nasistum

Eitt af síðustu verkum Vincent van Gogh, áður en hann svipti sig lífi árið 1890, var verkið The Lovers sem hann kláraði árið 1888. Á valdatíma Adolfs Hitlers í Þýskalandi stálu nasistar fjölmörgum verðmætum listaverkum úr einkasöfnum enda var markmið Hitlers að útbúa flottasta listasafn heims. Þegar þriðja ríkið var við það að falla voru mörg verkanna eyðilögð. Sérstök hersveit, sem Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseti kom á laggirnar, hafði því hlutverki að gegna að endurheimta þessi stolnu verk áður en þau yrðu eyðilögð en sveitin var meðal annars skipuð sérfræðingum um listaverk. Verk van Gogh var eitt þessara verka en þrátt fyrir góðan og ríkan vilja fannst það ekki. Enginn veit hvar verkið er niðurkomið í dag, en áhugasamir geta horft á myndina The Monuments Men frá árinu 2014 sem gerð var um bandaríska hópinn sem leitaði verkanna.


Fabergé-keisaraeggin

Fabergé-keisaraeggin voru framleidd á árunum 1885 til 1917. Eggin voru framleidd af skartgripasmiðnum Peter Carl Fabergé fyrir Alexander III og Nikulás II Rússakeisara og voru þau margrómuð fyrir mikil gæði og afar nákvæma smíði. Í fyrstu var eitt egg smíðað á ári en eftir að hróður eggjanna fór að berast um alla Evrópu fór konungborið fólk að panta sín egg. Allt í allt voru 52 egg gerð og af þeim eru sjö týnd. Í rússnesku byltingunni 1917 týndust nokkur eggjanna; sum voru seld til einkasafnara á meðan önnur enduðu á söfnum víða um heim. Þess má geta að eitt egg fannst af skransafnara í London árið 2014 en það var metið á hátt í fjóra milljarða á þeim tíma.


Stolið í Rotterdam

Charing Cross Bridge er eitt þekktasta verk franska listmálarans Claude Monet, en um er að ræða nokkur verk sem máluð voru meðan Monet dvaldi í London á árunum 1899 til 1905. Verkin sýna Hungerford-brúna, eða Charing Cross-brúna, á mismunandi tímum dags og í mismunandi veðurskilyrðum. Einu þessara verka, Charing Cross Bridge, London, var stolið á Kunsthal-listasafninu í Rotterdam árið 2012 og hefur ekki fundist. Einn var sakfelldur fyrir glæpinn en hann sagði að verkið hefði brunnið í ofni á heimili móður hans. Þó að leifar af einhvers konar málverki hefðu fundist í ofninum reyndist ómögulegt að sannreyna það. Verkið er því enn skráð sem týnt. Í ráninu var verki Gauguin, Femme Devant Une Fenetre Ouverte, Dite La Fiancée, einnig stolið og hefur það ekki fundist.


Enn í rannsókn, 27 árum síðar

Að morgni 18. mars árið 1990 var eitt bíræfnasta listaverkarán sögunnar framið í Boston þegar tveir menn, í einkennisbúningi lögreglu, stálu fjölmörgum verðmætum verkefnum af Isabella Stewart Gardner-listasafninu. Meðal þeirra voru verk eftir Vermeer, Manet og þrjú verk eftir Rembrandt, þar á meðal hið ómetanlega The Storm on the Sea of Galilee. Verkið var málað árið 1633 og er líklega eitt verðmætasta listaverk heims. Á safninu var einnig verkið The Concert eftir Vermeer sem er aðeins eitt 34 listaverka sem vitað er að eru eftir Vermeer, en verðmæti verksins er talið vera að minnsta kosti 200 milljónir Bandaríkjadala, rúmir 20 milljarðar króna. Þó að 27 ár séu liðin frá ráninu hefur það aldrei verið upplýst og ekkert af þeim verkum sem hurfu hefur fundist.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 klukkutímum

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?
433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Ivan Toney sagður gera kröfu um að þéna meira en Bruno

Ivan Toney sagður gera kröfu um að þéna meira en Bruno
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Svíi dæmdur fyrir að skjóta Gabríel

Svíi dæmdur fyrir að skjóta Gabríel
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Var agndofa þegar Schweinsteiger lýsti framkomu Mourinho hjá United – „Mér var bara sparkað út úr klefanum“

Var agndofa þegar Schweinsteiger lýsti framkomu Mourinho hjá United – „Mér var bara sparkað út úr klefanum“