Axel Bóasson, GK og Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK stóðu uppi sem stigameistarar á Eimskipsmótaröðinni 2017-2018.
Úrslitin réðust á Securitasmótinu ı GR-bikarnum um helgina á Grafarholtsvelli. Þetta er í þriðja sinn sem Axel fagnar þessum titli en í fyrsta sinn sem Guðrún Brá er stigameistari í kvennaflokki.
Axel og Guðrún eru ríkjandi Íslandsmeistarar í golfi 2018 og fengu þau 500.000 kr. í verðlaunafé fyrir árangur sinn á Eimskipsmótaröðinni.
Árangur Guðrúnar á tímabilinu var stórkostlegur en hún sigraði á fimm af alls sex mótum sem hún tók þátt í. Sigurhlutfallið var því 83%.
Helga Kristín Einarsdóttir, GK varð í öðru sæti á stigalistanum og Anna Sólveig Snorradóttir, GK varð í þriðja sæti. Lokastöðuna má sjá neðst í þessari frétt.
Árangur Guðrúnar Brár á Eimskipsmótaröðinni 2017-2018:
02.09.2017: Bose-mótið: 1. sæti.
16.09.2017: Honda Classic-mótið: 1. sæti.
18.05.2018: Egils-Gull-mótið: 1. sæti.
08.06.2018: Símamótið: Tók ekki þátt vegna verkefna erlendis.
29.06.2018: Origo-bikarinn -Íslandsmótið í holukeppni: Tók ekki þátt vegna verkefna erlendis.
20.07.2018: KPMG-bikarinn, Hvaleyrarbikarinn: 1. sæti.
26.07.2018: Íslandsmótið í golfi, Vestmannaeyjum: 1. sæti.
23.08.2018: Securitasmótið – GR-bikarinn: 2. sæti.
Árangur Axels á Eimskipsmótaröðinni var einnig stórkostlegur en hann sigraði á þremur af þeim fjórum mótum sem hann tók þátt í. Sigurhlutfallið var því 75%. Kristján Þór Einarsson, GM varð í öðru sæti á stigalistanum og Rúnar Arnórsson, GK varð í þriðja sæti.
Árangur Axels á Eimskipsmótaröðinni 2017-2018:
02.09.2017: Bose-mótið: Tók ekki þátt vegna verkefna erlendis.
16.09. 2017: Honda Classic-mótið: 1. sæti.
18.05.2018: Egils-Gull-mótið: 1. sæti.
08.06.2018: Símamótið: Tók ekki þátt vegna verkefna erlendis.
29.06.2018: Origo-bikarinn -Íslandsmótið í holukeppni: Tók ekki þátt vegna verkefna erlendis.
20.07.2018: KPMG-bikarinn, Hvaleyrarbikarinn: Tók ekki þátt vegna verkefna erlendis.
26.07.2018: Íslandsmótið í golfi, Vestmannaeyjum: 1. sæti.
23.08.2018: Securitasmótið – GR-bikarinn: 2.sæti
Í ár var stigameistaratitillinn veittur í 30. sinn frá upphafi. Stigamótaröð GSÍ hófst árið 1989 og voru Sigurjón Arnarsson (GR) og Karen Sævarsdóttir (GS) fyrstu stigameistararnir. Björgvin Sigurbergsson (GK), faðir Guðrúnar Brár Björgvinsdóttur, hefur oftast orðið stigameistari í karlaflokki eða fjórum sinnum alls. Í kvennaflokki hefur Ragnhildur Sigurðardóttir úr GR oftast fagnað stigameistaratitlinum eða níu sinnum alls.