Árið 2021, í desember, ruddust vopnaðir lögreglumenn inn á heimili Craig Johnson og unnustu hans, Cherry Turner í Northumbria, Bretlandi. Craig var leiddur í járnum út af heimilinu á nærfötunum og eftir sat unnusta hans í miklu áfalli. Skömmu síðar kom á daginn að lögreglan hafði farið mannavillt. Þeir leituðu annars manns að nafni Craig Johnson sem var grunaður um alvarlegt ofbeldisverk. Craig var látinn laus en það tók lögreglu tvo mánuði að gangast við því að hafa farið mannavillt og að Craig væri laus allra mála. Biðin reyndist parinu óbærileg og þegar tilkynningin loks barst var skaðinn þegar skeður. Fjórum árum síðar eru bæði Cherry og Craig látin en fjölskyldur þeirra tengja andlát beggja við handtökuna og áföllin sem fylgdu í kjölfarið. The Sun greinir frá.
Lögreglan fór miklum offörum við handtökuna, sérsveitarmenn komu vopnaðir inn á heimilið ásamt lögregluhundum og lætin í sírenum lögreglubílanna voru ærandi. Cherry fékk áfall sem hún náði aldrei að jafna sig á. Hún glímdi í framhaldinu við mikla depurð og kvíða. Síðar tók alvarlegt þunglyndi við. Sjö mánuðum eftir handtökuna svipti hún sig lífi. Craig var langveikur. Hann glímdi við nýrnasjúkdóm og hafði árið 2017 fengið gjafanýra frá föður sínum. Hann þurfti engu að síður að mæta reglulega í blóðskilun og huga að heilsunni. Hann sá þó engan tilgang í lífinu eftir að Cherry yfirgaf þessa tilvist. Þau höfðu verið par síðan þau voru aðeins 13 ára gömul.
Móðir Craig segir í samtali við fjölmiðla: „Sonur minn ákvað að hætta í þeirri meðferð sem hann þurfti að vera í eftir nýrnaígræðsluna. Ef Cherry væri enn á lífi væri Craig enn á lífi.“
Craig sagði fjölskyldu sinni að hann gæti ekki lifað án unnustu sinnar. Fjölskyldan grátbað hann um að halda áfram að mæta í blóðskilun en þeim tókst ekki að tala um fyrir honum.
„Hann sagði: Mamma, ég elska þig en ég get þetta ekki án Cherry.“
Fjölskyldur beggja segja að handtakan hafi dæmt þau öll í lífstíðarfangelsi sársauka, en þau gagnrýna sérstaklega hversu langan tíma það tók að tilkynna parinu að Craig væri ekki grunaður um nokkuð saknæmt og að lögregla hefði farið mannavillt. Hefði það verið gert strax þá hefði Cherry líklega ekki orðið svona veik af kvíða og depurð.
Formleg rannsókn hefur nú loks verið hafin á atvikinu en fjölskyldurnar fagna því að fá loksins svör, þó að ekkert geti dregið úr þeim harmi sem atvikið hafi valdið. Líf þeirra sé breytt til frambúðar og lífum Craig og Cherry er lokið. Lögreglan hefur nú beðist afsökunar og segist harma hvernig fór.