The Independent segir að Myers hafi verið sakfelldur fyrir að hafa myrt nágranna sinn, Ludie Mae Tucker 69 ára, með því að stinga hana til bana árið 1991.
Ivey sagði að það séu nægar efasemdir um að Myers sé sekur og því geti hún ekki látið taka hann af lífi en það átti að gera síðar á árinu. „Ég er ekki sannfærð um að Myers sé saklaus en ég er heldur ekki svo sannfærð um sekt hans að ég geti samþykkt aftöku hans,“ sagði hún í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér á föstudaginn.
Myers mun eyða því sem hann á eftir ólifað bak við lás og slá því hann getur ekki fengið reynslulausn. Þegar réttað var í máli hans 1994 mælti kviðdómurinn með því að hann yrði dæmdur í ævilangt fangelsi án möguleika á náðun. Dómarinn dæmdi hann hins vegar til dauða en það gat hann gert á grundvelli laga sem heimiluðu dómurum að hunsa ákvörðun kviðdóms. Þessi lög hafa nú verið felld úr gildi.
Lögmenn Myers segja að engin sönnunargögn á vettvangi hafi tengt Myers við morðið. Áður en Tucker lést af völdum áverka sinna sagði hún að árásarmaðurinn hefði verið lágvaxinn og þéttvaxinn svartur maður og nefndi hvorki Myers eða annan nágranna sinn sem árásarmanninn en þau þekktust öll.
Því hefur verið haldið fram að Myers hafi verið auðvelt fórnarlamb í málinu vegna skertrar andlegrar getu hans.