Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar. Það er auðvitað hollt að borða grænmeti og þeim mun meira, þeim mun betra. Þetta vitum við öll en nú fá kjötæturnar þær góðu fréttir að ef þær borða líka grænmeti, þá dafna örverurnar í þörmunum vel.
Jótlandspósturinn segir að rannsóknin hafi náð til 22.000 manns og var þarmaflóra þeirra rannsökuðu. Niðurstaðan er að mikil neysla á fjölbreyttum tegundum grænmetis eykur örverufjölbreytileikann í þörmunum sem og fjölda örvera og virkni heilsubætandi baktería.
Oluf Borbye Pedersen, einn fremsti sérfræðingur heims í rannsóknum á þarmaflórunni, sagði í samtali við Videnskab að maturinn, sem við borðum, virðist vera öflugasti þátturinn hvað varðar samsetningu og ekki minnst virkni hinna mörgu örvera í þörmunum. Þetta var vitað áður en hefur nú verið staðfest enn frekar með þessari rannsókn.