Dularfullar myndir sem NASA, geimferðastofnun Bandaríkjanna, birti frá Mars hafa valdið miklu fjaðrafoki hjá samsæriskenningasmiðum. Myndirnar komust á flug í gegnum samfélagsmiðilinn Reddit og sprungu svo út þegar hlaðvarpsstjórnandinn Joe Rogan birti þær á X-síðu sinni og sagði myndirnar „trylltar“.
Á myndunum, sem koma frá Mars Global Surveyor’s Mars Orbiter-myndvélinni eða MOC, má sjá ferhyrningslaga ummerki á plánetunni rauðu. Vísindamenn hafa ekki enn getað útskýrt hvað sé þarna á seyði en samsæriskenningasmiðir eru með svörin á reiðum höndum.
Telja margir um sé að ræða einhverskonar fornminjar og um sé að ræða ummerki um byggingar eins og pýramídana í Egyptalandi.
Góðvinur Rogan, auðkýfingurinn Elon Musk, var fljótur til og sagði í X-færslu að senda þyrfti geimfara til Mars að rannsaka málið.