
Það var í janúar árið 1991 þegar hin 34 ára gamla Aileen „Lee“ Wuornos sagði í símtali við kærustu sína, Tyria Moore, að hún væri tilbúin að gera allt fyrir ástina. Símtalið tók lögreglan upp enda hafði Wuornos þarna verið handtekin vegna gruns um að hún væri raðmorðingi.
„Lee, lögreglan er á eftir mér,“ sagði Moore skelkuð í símanum. Wuornos svaraði þá ákveðin: „Ég mun ekki láta þig fara í fangelsi, Ty, ég elska þig. Ef ég þarf að játa allt bara til að halda þér fyrir utan þetta þá mun ég gera það.“
Játningin varð til þess að Wuornos var dæmd til dauða fyrir sjö morð. Hún var tekin af lífi árið 2002. Fjölmiðlar kölluðu hana vændiskonuna frá helvíti en ári eftir að dauðarefsingunni var framfylgt fékk Wuornos nýtt líf í kvikmyndinni Monster sem fjallaði um líf hennar og glæpi.
Nú er komin út önnur mynd um Wuornos og að þessu sinni er hún ekki leikin heldur er um heimildarmynd á Netflix að ræða. Myndin kallast: Aileen: Drottning raðmorðingjanna. Þar er farið yfir skelfilega ævi hennar sem einkenndist af ítrekuðum kynferðisbrotum, ofbeldi og svikum. Leikstjóri myndarinnar er Emily Turner en hún hefur undir höndum viðtal sem var tekið við Wuornos eftir að hún var sakfelld. Turner segir í myndinni að viðtalið birti aðra mynd af meinta raðmorðingjanum en hefur sést hingað til. Þar sagði Wuornos meðal annars: „Hin raunverulega Aileen Wuornos er ekki raðmorðingi. Ég var svo full og svo týnd, svo rugluð í hausnum að ég varð að einum. En ég raunverulega sjálf er ekki morðingi.“
Wuornos var yfirgefin af móður sinni aðeins 4 ára gömul. Hún átti ekkert samband við föður sinn enda var hann í lífstíðarfangelsi fyrir barnaníð. Hennar beið ekkert betra eftir að amma hennar og afi ættleiddu hana. Þau bjuggu við mikla fátækt og beittu Wuornos ofbeldi. Aðeins 13 ára gömul varð hún þunguð eftir að vinur afa hennar nauðgaði henni. Barnið var síðar gefið til ættleiðingar. Samkvæmt Wuornos beitti afi hennar hana líka kynferðisofbeldi og eins stundaði hún sifjaspell með bróður sínum.
Amma hennar lést þegar Wuornos var 15 ára og hún og bróðir hennar voru þá send á barnaheimili. Wuornos ákvað að stjúka og sjá fyrir sér með vændi.
Í áðurnefndu viðtali segir Wuornos: „Mér hefur líklega verið nauðgað, ég myndi segja svona 30 sinnum, jafnvel oftar.“
Hún bætti þó við að hún hafi ekki leyft ofbeldinu að hafa áhrif á sig. „Ég er hörð af mér. En aum kona hefði tekið þetta inn á sig.“
Líf hennar breyttist svo árið 1986 þegar hún hitti Tyria Moore á bar í Flórída. „Ég elskaði hana svo heitt. Hún er eina ástæðan fyrir því að ég var með helvítis byssuna. Ég vildi tryggja að ég kæmist lifandi heim svo ég gæti varið öðrum degi á lífi með henni.“
Árið 1989 hóf lögregla rannsókn á ofbeldisfullum morðum. Sex karlmenn höfðu fundist skotnir til bana í Flórída og höfðu auk þess verið rændir. Vitni sáu tvær konur aka á bifreið sem eitt fórnarlambið átti og lögregla fann hlut úr eigu fórnarlambs í veðlánabúllu og á honum var fingrafar Wuurnos. Hún var svo handtekin í janúar árið 1991 og játaði sök í áðurnefndu símtali við kærustu sína.
Hún var tilbúin að gera hvað sem er fyrir ástina en það sem hún vissi ekki var að Moore var að starfa með lögreglunni. Henni var lofað friðhelgi í málinu ef hún fengi Wuurnos til að játa. Wuurnos reyndi síðar að draga játninguna til baka enda hafði lögregla þvingað hana fram með því að nota kærustu hennar.
Við aðalmeðferð í fyrsta morðmálinu neitaði Wuornos sök. Hún sagði að maðurinn hefði nauðgað sér og pyntað og hún því skotið hann í sjálfsvörn. Lykilvitni ákæruvaldsins var þó kærastan hennar, Moore, sem hélt því fram að morðið hefði verið af yfirlögðu ráði. Aftur hafði Wuornos verið svikin og kviðdómur sakfelldi hana. Hún virtist slegin yfir niðurstöðunni og öskraði í dómsalnum: „Ég er saklaus. Mér var nauðgað. Ég vona að ykkur verði nauðgað. Skíthælar Bandaríkjanna.“
Hún ákvað svo að halda ekki uppi vörnum í hinum málunum. Hún virtist gefast upp og árið 2001 sagðist hún tilbúin að deyja.
„Ég myrti þessa menn, rændi þá alveg svellköld. Og ég myndi gera það aftur líka. Það er ekkert á því að græða að halda mér lifandi því ég myndi bara drepa aftur. Ég er með hatur í æðum mér.“
Heimildarmyndin spyr hvort Wuornos hafi í raun fengið sanngjarna meðferð í réttarkerfinu. Saksóknarinn var yfirlýstur andstæðingur vændis og fór mörgum orðum um það í dómsal að varla gæti Wuornos hafa verið nauðgað þegar maðurinn hafði borgað henni fyrir kynlíf. Eins hefur komið í ljós að fyrsta fórnarlambið hennar var kynferðisbrotamaður.
Æskuvinkona hennar, Dawn Botkins, stígur fram í heimildarmyndinni en hún heimsótti Wuurnos kvöldið fyrir aftökuna.
„Hún sagði mér að hún væri klárlega raðmorðingi. Þetta væri vegna allra áranna af ofbeldinu ásamt drykkjunni og svo líka Ty [Moore]. Aileen sagði ítrekað við mig: „Þetta var rosaleg ást, er það ekki? Hún var banvæn.“