Stórfyrirtækið Meta, sem á þekkta samfélagsmiðla á borð við Facebook og Instagram, hefur verið harðlega gagnrýnt í vikunni fyrir ritskoðun af ýmsu tagi. Eins hefur fyrirtækið verið sakað um að skrá fólk sjálfkrafa sem fylgjendur Donald Trump Bandaríkjaforseta, JD Vance varaforseta, og forsetafrúnnar Melania Trump. Nú er fyrirtækið sakað um að hafa lokað fyrir aðgang hjá og falið færslur samtaka sem bjóða konum að nálgast svokallaðar þungunarrofstöflur.
Sjá einnig: Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins
Bæði Instagram og Facebook hafa undanfarið falið myndir, blokkað aðganga eða fjarlægt færslur hjá tveimur sem bjóða upp lyf sem binda endi á meðgöngu. Instagram hefur eins komið í veg fyrir að hægt sé að finna síður þeirra í leit miðilsins. Mörg ríki Bandaríkjanna hafa takmarkað verulega réttinn til þungunarrofs eða afnumið hann með öllu og þurfa konur því að treysta á samtök sem þessi sem senda þungunarrofstöflur í pósti.
Þetta mun að sögn New York Times hafa staðið yfir í þó nokkurn tíma en orðið verra síðasta hálfa mánuðinn, þá sérstaklega í vikunni sem er að líða. Meta gekkst við því að hluta þegar New York Times leituðu svara og fljótlega eftir fyrirspurnina drógu þeir úr aðgerðunum sínum en hættu þeim þó ekki alfarið.
Meta hefur eins verið gagnrýnt fyrir tengsl forstórans, Mark Zuckerberg, við Donald Trump og fyrir að hafa nýlega látið af staðreyndavöktun og aðgerðum gegn hatursorðræðu. Meta segir að aðgerðir gegn áðurnefndum samtökum tengist ekki nýrri stefnu þeirra, en þetta vekur þó upp áleitnar spurningar þar sem meðlimir ríkisstjórnar Trump eru upp til hópa á móti þungunarrofi.
Talsmaður Meta segir aðgerðir gegn þungunarrofssamtökunum tengjast því að þar er verið að auglýsa lyfseðilsskyld lyf en slík samtök þurfi að hafa viðeigandi leyfi og vottanir. Meta viðurkenndi þó að hafa gengið of hart fram í vissum tilvikum.
Lisa Femia, lögmaður hjá Electronic Frotnier Foundation, segir að síðan Hæstiréttur Bandaríkjanna sneri við túlkun sinni á stjórnarskránni í málinu Roe gegn Wade árið 2022 hafi hún veitt því eftirtekt að samfélagsmiðlar hafi í auknum mæli fjarlægt efni sem tengist kynheilbrigði, þá einkum rétti kvenna til að ákveða sjálfar hvenær og hvort þær eignist börn. Þetta sé alvarlegt mál þar sem komið er í veg fyrir að konur geti nálgast nauðsynlegar upplýsingar og leiðbeiningar um kynheilbrigðisþjónustu. Samkvæmt Roe gegn Wade var rétturinn til þungunarrofs tryggður í stjórnarskrá. Eftir að fordæminu var snúið við er ekkert sem tryggir þennan rétt heldur er það undir hverju ríki Bandaríkjanna komið að ákveða fyrir sitt hvort slíkur réttur sé þar til staðar og þá upp að hvaða marki.
Sjá einnig: Skyndilega farin að fylgja Trump á miðlum Meta og geta ekki hætt því
Aid Access er einn stærsti veitandi þungunarrofslyfja í Bandaríkjunum og segjast samtökin hafa lent í því að fjöldi færslna þeirra voru fjarlægðar á Facebook og að myndir sem samtökin birtu á Instagram voru blörraðar. Samtökin hafi svo verið útilokuð frá aðgangi sínum á Facebook síðan í nóvember og frá Instagram síðan í síðustu viku.
Sambærileg samtök á borð við Women Help Women og Just the Pill lentu líka í banni síðustu daga. Leituðu samtökin skýringa frá Meta og fengu þau svör að samtökin væru ekki að fylgja reglum miðilsins hvað varðar fíkniefni.
Framangreind samtök fengu öll aftur aðgang að miðlum sínum í gær eftir að fjölmiðlar fóru að grafast fyrir um málið.