Móðir bresks háskólanema sem ekkert hefur spurst til síðan í mars á þessu ári segir tæknirisann Apple hafa neitað að afhenda gögn úr Apple AirTag staðsetningartæki sem hún segir að sonur hennar hafi verið með á sér þegar hann hvarf.
Catherine O’Sullivan hefur ásamt fjölskyldu og vinum barist ötullega fyrir því að upplýst verði hvað varð um son hennar Jack O’Sullivan. Unnið hefur verið markvisst að því að halda málinu á lofti í fjölmiðlum og meðal almennings.
Nokkuð hefur verið fjallað um málið í breskum fjölmiðlum undanfarna daga og rætt hefur verið Catherine í vinsælustum spjallþáttum Bretlands.
Jack hvarf í borginni Bristol eftir að hafa verið viðstaddur partí að kvöldi 2. mars síðastliðins. Hvorki hefur fundist tangur né tetur af honum síðan og fjölskylda hans verður sífellt vonsviknari með hversu illa hefur gengið að upplýsa um örlög Jack. Fjölskyldan er einnig óánægð með rannsókn lögreglunnar og segir að framkvæmd hennar hafi verið ófullnægjandi.
Í umfjöllun Mirror kemur fram að lögreglan í Avon og Somerset, en Bristol tilheyrir því löggæsluumdæmi, segist hafa lagt mikla vinnu í rannsókn málsins. Um 100 klukkustundir af upptökum úr eftirlitsmyndavélum hafi verið skoðaðar og umfangsmikil leit verið gerð á því svæði þar sem Jack hvarf. Þessi rannsókn hefur hins vegar engan árangur borið og örvænting Catherine og annarra fjölskyldumeðlima hefur því farið vaxandi.
Catherine segir að nokkrum klukkutímum áður en hann hvarf hafi Jack kennt henni að nota Apple AirTag en eins og margir vita er það til dæmis oft nýtt til að festa á ferðatöskur eða aðra hluti sem viðkomandi vill geta fundið ef þeir týnast.
Hún segir þau mæðgin hafa rætt um hvort Jack ætti að taka með sér bíllykla sem voru með AirTag fest við þá.
Catherine fullyrðir að þegar Jack hafi stigið um borð í strætisvagn eftir partíið hafi hann verið með Apple AirTag á sér sem kveikt hafi verið á og það hafi verið virkt. Hún hafi sagt lögreglunni frá þessu og talið að tækið ætti að nýtast mjög vel við að finna Jack.
Fjölskyldan segir hins vegar að Apple hafi alfarið neitað að afhenda gögn úr AirTag tækinu sem Jack var með á sér. Fyrirtækið hafi vísað í lög um friðhelgi einkalífsins en löglærður fjölskylduvinur hafi sagt þessar skýringar ekki halda vatni og fyrirtækið megi afhenda slík gögn þegar um mannshvarf er að ræða.
Apple virðist þó loks hafa gefið eftir. Lögreglan tjáði fjölskyldunni að hún hefði loksins fengið aðgang að gögnunum en engar upplýsingar hafi hins vegar sést þegar þau voru opnuð. Taldi lögreglan að hleðslan á rafhlöðunni í tækinu væri búin en hleðsla á AirTag á hins vegar að endast í heilt ár og Catherine fullyrðir að tækið hafi verið fullhlaðið þegar Jack hélt af stað í partýið, með AirTag-tækið á sér. Catherine segir að starfsmenn Apple hafi tjáð henni að gögnin eigi að sjást þótt að hleðslan á tækinu sé mjög lítil.
Lögreglan kom síðan með þá skýringu að tækið hefði verið skráð á Apple-reikning kærustu Jack þess vegna hafi ekkert sést þegar gögnin voru opnuð.
Hvort þetta þetta þýði að eitthvað muni nú skýrast hvað varð um Jack O´Sullivan á eftir að koma í ljós.