Á sunnudagsmorgun fundust lík 82 ára karlmanns, Joe Cornelius sr., og 31 árs dóttur hans, Keisha Miles, á heimili í bænum. Joe var vel þekktur í bænum enda fyrrverandi bæjarstjóri. Í ljós kom að bæði höfðu verið skotin til bana og fundust tvö skotvopn á vettvangi.
Í frétt NBC kemur fram að skömmu eftir að líkin fundust hafi lögregla rætt við ellefu ára dreng. Ekki liggur fyrir nákvæmlega hvað kom fram í samtali lögreglunnar við drenginn en það endaði að minnsta kosti með því að drengurinn játaði að hafa myrt Joe og Keishu.
„Við vitum hvaðan skotvopnin komu en það er mörgum spurningum enn ósvarað í þessu máli,“ segir lögreglustjórinn við bandaríska fjölmiðla. Ekki liggur fyrir hvað drengnum gekk til en lögregla segir að hann hafi „verið í fjölskyldu“ fórnarlambanna.
Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því að hugsanleg ástæða morðanna hafi verið ósætti vegna tölvuleikjakaupa en lögregla hefur hvorki játað því né neitað.
McIver segir að lögreglumönnum sem komið hafa að rannsókn málsins sé brugðið vegna ungs aldurs gerandans. Þá ríki sorg vegna dauða bæjarstjórans fyrrverandi.
„Þetta er áfall fyrir samfélagið. Það þekktu allir Joe og hann vandi komu sína á lögreglustöðina þar sem hann var alltaf léttur og alltaf að grínast.“