Forstjóri Facebook, Mark Zuckerberg, telur ekkert orsakasamhengi milli samfélagsmiðla og versnandi líðan ungmenna í dag. Ekkert bendi til þess að samfélagsmiðlanotkun hafi áhrif á andlega heilsu. Þetta kom fram í viðtali Zuckerberg hjá The Verge en hann segist engu að síður ætla að verða við fyrirmælum yfirvalda um hvernig beri að tryggja öryggi barna.
Zuckerberg hafði áður deilt þessari afstöðu sinni þegar hann gaf skýrslu fyrir Bandaríkjaþingi í janúar. Hann benti þar á að samfélagsmiðlar hafi bæði góð og slæm áhrif á ungmenni. Það væri undir foreldrum komið að lágmarka neikvæðu áhrifin og því ákvað Zuckerberg að bjóða foreldrum að vakta og stýra aðgangi barna sinna á samfélagsmiðla hans.
Árið 2021 var trúnaðarskjölum frá Meta lekið til fjölmiðla en þau bentu til þess að samsteypan væri meðvituð um skaðleg áhrif Instagram á andlega heilsu ungmenna.