El Pais skýrir frá þessu og segir að klukkan 9 hafi aftur komið til skotbardaga í borginni og hafi einn fallið í honum. Í kjölfarið breiddust átök út um alla borg.
Dagana á eftir voru margir skólar og verslanir lokaðar og skotbardagar héldu áfram. Þetta hafði að vonum mikil áhrif á þá eina milljón manna sem býr í borginni.
Nú er búið að opna suma af skólunum á nýjan leik og standa hermenn vörð um þá. 2.200 hermenn og þjóðvarðliðar hafa verið sendir til borgarinnar til að takast á við glæpagengin en borgarbúar lifa samt sem áður í ótta.
„Þetta er eins og á tímum heimsfaraldursins. Margir glíma við geðrof, kvíða, svefnleysi, stress og mikinn ótta. Við vorum ekki undir þetta búin,“ hefur El Pais eftir einum borgarbúa.
Að minnsta kosti 30 hafa fallið í átökunum og enn fleiri hafa horfið sporlaust. Það eru tveir hópar úr hinum illræmdu Sinaloa-eiturlyfjahring sem takast á í borginni og stundum lendir þeim saman við her og lögreglu.
Þetta eru átök sem sérfræðingar óttuðust og áttu von á að myndu brjótast út. Þau geta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir íbúa borgarinnar að þeirra sögn.
Myndbandið hér fyrir neðan sýnir að sögn skotbardaga tveggja glæpahópa.
#ÚLTIMAHORA Se reporta de nueva cuenta enfrentamiento armado en #Culiacán. Nuestro colega @Felicitos_ , informa que se da entre grupos de civiles en la salida sur de la capital de #Sinaloa, extreme precauciones. pic.twitter.com/Fl6a9W7JBY
— Michelle Rivera (@michelleriveraa) September 10, 2024
Sinaloa-eiturlyfjahringurinn var stofnaður í lok níunda áratugarins af Joaquin „El Chapo“ Guzman, sem er einn illræmdasti eiturlyfjabaróninn í sögu Mexíkó, og félaga hans Ismael „El Mayo“ Zambada.
„El Mayo“ hélt sig alltaf í skugganum en „El Chapo“ var mun virkari út á við og mun ofbeldisfyllri. En það þýðir ekki að „El Mayo“ hafi ekki einnig tekið þátt í ofbeldisverkum og komið að morðum.
Sinaloa hefur lengi verið stærsti og valdamesti eiturlyfjahringurinn í Mexíkó.
2006 braust stríð út á milli eiturlyfjahringanna í landinu og yfirvalda þegar þáverandi forseti lýsti yfir stríði gegn þeim. Þetta stríð hefur kostað um 420.000 manns lífið að sögn New York Times.
Myndbandið hér fyrir neðan sýnir skotárás á hermenn í Culiacán þann 12. september.
🚨#Culiacán Difunden video en el que elementos del ejército mexicano ( @SEDENAmx) son agredidos a balazos por sujetos armados en Rivera de Tamazula, en Culiacán. pic.twitter.com/u4G50661mA
— Michelle Rivera (@michelleriveraa) September 12, 2024
Handtökur
„El Chapo“ var handtekinn 2016 og þremur árum síðar var hann dæmdur í ævilangt fangelsi í Bandaríkjunum. Synir hans tóku þá við stjórnartaumunum í hans hluta af Sinaloa. Þeir eru kallaðir „Los Chapitos“.
Í lok júlí í ár voru Joaquin Guzman Lopez, einn sona „El Chap“, og „El Mayo“ handteknir í El Paso í Bandaríkjunum.
Svo virðist sem Joaquin Guzman Lopez hafi lokkað „El Mayo“ til fundar við sig. Þar var „El Mayo“ numinn á brott og settur upp í flugvél sem flutti hann til Bandaríkjanna þar sem þeir voru handteknir.
Nathan P. Jones, prófessor við Sam Houston State University í Texas, hefur mikla þekkingu á mexíkósku eiturlyfjahringunum og segir hann að það sé þetta sem hratt yfirstandandi átökum af stað.
Hann sagði að í kjölfar handtakanna hafi sérfræðingar óttast mjög að til átaka kæmi á milli tveggja greina í Sinaloa, það er á milli þess hluta sem synir „El Chapo“ stýra og þess sem styðja „El Mayo“.
Það virðist einmitt vera raunin.