Hann hét Abdul Rahman Milad og náði því að verða 34 ára en hann var nýlega skotinn til bana í úthverfi Trípólí í Líbýu. Hann var alltaf kallaður Bidja og að sögn alþjóðalögreglunnar Interpol þá var hann einn af umsvifamestu aðilunum í Líbýu þegar kom að því að smygla fólki yfir Miðjarðarhafið til Evrópu. En það var ekki eina starfið hans, því hann var einnig yfirmaður líbýsku strandgæslunnar sem fékk fjárhagsstuðning frá ESB til að reyna að stöðva flóttamannastrauminn.
Á meðan samstarfsmenn hans voru önnum kafnir við að setja örvæntingarfullt fólk um borð í hripleka gúmmíbáta, sat Bidja á fundum á Ítalíu með ítölskum yfirvöldum og ræddi um samstarfið við að stöðva flóttamannastrauminn.
Jótlandspósturinn segir að árum saman hafi hann haft frjálsar hendur og hafi getað leikið tveimur skjöldum því í Líbýu hefur verið algjör ringulreið og stjórnleysi síðan Muammar Gaddafi, einræðisherra, var drepinn 2011.
Í kjölfar drápsins á honum hafa mörg samtök barist um völdin í landinu og smyglarar hafa haft mikið svigrúm til að flytja flóttafólk yfir Miðjarðarhafið til fyrirheitnaálfunnar Evrópu.
Bidja og glæpagengi hans réðu lögum og lofum í borginni Zawiya, sem er við vesturströnd landsins, en önnur glæpagengi réðu lögum og lofum í öðrum borgum og bæjum.
En það komst upp um hann að lokum og 2018 beitti öryggisráð SÞ hann refsiaðgerðum og fimm aðrir leiðtogar glæpagengja fengu sömu meðferð hjá öryggisráðinu. Öryggisráðið sakaði hann um að stunda smygl á fólki og fyrir að notfæra sér völd sín hjá strandgæslunni til að láta sökkva bátum, sem fluttu flóttafólk, með því að skjóta á þá. Þetta voru bátar frá keppinautum hans.