Ef fólk er staðið að því að pissa í sjóinn við spænska strandbæinn Marbella á það sekt, sem nemur allt að 440.000 krónum, yfir höfði sér.
Reglurnar um þetta tóku gildi nú í september en þær eru hluti af aðgerðum yfirvalda til að takast á við eitt og annað sem þykir óæskileg hegðun af hálfu ferðamanna.
Bild segir að við fyrsta broti fólks á þessari pissureglu liggi sekt upp á 750 evrur, það svarar til um 115.000 íslenskra króna. Ef fólk lætur sér ekki segjast og pissar aftur í sjóinn, þá fær það sekt upp á sem svarar til 230.000 króna. Í þriðja sinn er sektin sem nemur 440.000 íslenskum krónum.
En stóri gallinn, út frá sjónarhóli yfirvalda, er að það er nánast útilokað að framfylgja banninu og það eru bæjaryfirvöld meðvituð um. Í tilkynningu frá þeim segir að það verði líklega mjög erfitt að sanna brot af þessu tagi og því leggja þau traust sitt á fólk og að það virði bannið.