Pilturinn, Collin Griffith, hafði samband við neyðarlínuna þann 8. september síðastliðinn þar sem hann tilkynnti að móðir hans hefði orðið fyrir hnífstungu. Sagði hann að móðir hans hafi komið hlaupandi að honum með hníf en dottið á hann með þeim afleiðingum að hún lést.
„Rannsókn okkar sýnir að atvikin gerðust ekki með þeim hætti sem hann lýsti,“ segir Grady Judd, lögreglustjóri í Polk-sýslu í samtali við fréttamiðla. Nágranni lýsti því meðal annars við lögreglu að hann hefði séð Collin draga móður sína inn í húsið á hárinu áður en hún lést.
Í febrúar 2023 lést faðir drengsins eftir að Collin skaut hann til bana á heimili hans í Oklahoma. Rannsókn málsins var látin niður falla því saksóknarar gátu ekki sannað að ekki hafi verið um sjálfsvörn að ræða. Eftir að faðir hans lést flutti hann til móður sinnar sem búsett var í Flórída og hafði lögregla haft afskipti af þeim áður, meðal annars vegna ofbeldis sem drengurinn beitti móður sína.
„Þegar þið horfið á hann sjáið þið ungan dreng, en þegar ég horfi á hann sé ég brjálæðing,“ segir lögreglustjórinn Grady Judd.