Fyrstu kappræðurnar milli forsetaframbjóðendanna Kamala Harris og Donald Trump fóru fram í nótt og af viðbrögðum netverja má ætla að kjósendur beggja séu nokkuð lukkulegir með frammistöðu síns frambjóðenda. Sérfræðingum þykir þó Harris hafa staðið sig ögn betur en fjölmiðlar á hægri kantinum vilja þó meina að hún hafi fengið ósanngjarnan liðstyrk frá stjórnendum kappræðnanna.
Trump sjálfur virðist ganga sáttur frá borði og telur sig augljósan sigurvegara næturinnar. Hann veitti fjölmiðlum viðtal eftir kappræðurnar þar sem sagði að Harris hafi þegar óskað eftir öðrum kappræðum, og telur Trump það skýrt merki um að hann hafi staðið sig betur. „Hún vill aðrar kappræður því hún tapaði frekar illa í kvöld“
Hann kvartaði eins undan stjórnendum kappræðnanna. Þau hafi verið með Harris í liði. Þetta byggir forsetaframbjóðandinn á því að stjórnendur leiðréttu hann ítrekað eftir að hann fór með rangfærslur. Svo sem þegar Trump hélt því fram að demókratar leyfi þungunarrof eftir að börn eru fædd, að innflytjendur séu að éta heimilisketti nágranna sinna og að ofbeldisfullum glæpum hafi fjölgað í stjórnartíð Joe Biden Bandaríkjaforseta.
Spurningum rigndi yfir Trump sem meðal annars tók fram að hann elska svarta kjósendur „og þeir elska mig líka“ í beinu framhaldi var hann spurður hvort hann óttaðist að missa atkvæði kjósenda frá Haiti eftir ítrekaðar fullyrðingar Trump og varaforsetaefnis hans, JD Vance, um að innflytjendur frá Haiti séu að veiða ketti, gæsir og endur og borða dýrin. Trump sagði að ef svo væri þá yrði það svo, hann væri bara að segja sannleikann. Rétt er að geta þessa að þessar ásakanir gegn innflytjendur frá Haiti hafa hvergi fengist staðfestar heldur virðast eiga rætur að rekja til facebook-færslu í íbúahóp þar sem gæludýr fannst látið í tré nærri heimili fólks frá Haiti, sú frásögn hefur ekki heldur fengist staðfest.
„Þetta voru mínar bestu kappræður“ sagði Trump og tók fram að Harris hafi staðið sig illa, sérstaklega hvað varðaði utanríkismál og landamæri Bandaríkjanna. „Ég er mjög lukkulegur með kvöldið“
Síðar sagði Trump að hann væri augljós sigurvegari kvöldsins samkvæmt fyrstu könnunum þar sem hann hefði mikla yfirburði. Ekki er ljóst hvaða kannanir hann vísar til en almennt hefur Harris mælst ögn hærri eftir frammistöðu kvöldsins, þó enn sé naumt á munum.