fbpx
Mánudagur 16.september 2024
Pressan

Talíbanar nota áhrifavalda til að kynna Afganistan sem draumaáfangastað

Pressan
Sunnudaginn 1. september 2024 21:30

Áhrifavaldar flykkjast til Afganistans.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Afganistan er líklega ekki ofarlega á lista margra ferðamanna sem vilja kynnast nýjum og spennandi áfangastöðum. Þrátt fyrir það reyna hinir illræmdu Talíbanar sem fara með völd í landinu að lokka ferðamenn til landsins og nota þeir áhrifavalda frá Vesturlöndum til þess. Og það virðist vera að bera árangur ef marka má tölur um fjölda ferðamanna sem heimsækja landið.

Talíbanar, sem víða eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök, náðu völdum í Afganistan skömmu eftir að bandaríski herinn tók að draga sig frá landinu árið 2021.

Þrjú ár eru nú liðin síðan þeir náðu völdum í höfuðborginni Kabúl og á þeim tíma hefur mjög verið þrengt að réttindum kvenna, nú síðast í vikunni þegar lög sem banna konum að tala á almannafæri tóku gildi. Konur sem halda fram hjá mökum sínum geta átt von á því að verða grýttar til dauða og margar treysta sér ekki til þess að fara út fyrir hússins dyr nema í fylgd maka eða karlkyns ættingja.

PR-fulltrúar Talíbana

Daily Mail birti í vikunni áhugaverða umfjöllun um ferðamannaiðnaðinn í landinu og benti á að þrátt fyrir þetta gríðarlega bakslag í réttindum kvenna flykkist áhrifavaldar til landsins til að kynna það. Ekki þurfi að leita lengra en á TikTok og Instagram til að finna myndir og myndbönd frá „atvinnutúristum“ sem kynna kosti landsins en líta fram hjá göllunum. Þannig megi segja að þessir áhrifavaldar séu orðnir eins konar PR-fulltrúar Talíbana í Afganistan.

Tölurnar tala líka sínu máli. Þó að Afganistan sé ekki vinsæll áfangastaður meðal ferðamanna hefur fjöldinn aukist ár frá ári. Árið 2021 voru heimsóknir 691 ferðamanns skráðar, árið 2022 voru þær rúmlega tvö þúsund og árið 2023 voru þær rúmlega sjö þúsund. Tölur fyrir þetta ár liggja ekki fyrir en líkur eru á tölurnar þokist enn upp á við.

Þrátt fyrir tiltölulega fáar heimsóknir hafa ferðamenn sem heimsótt hafa landið lent í miklum vandræðum þó ekki sé talað sérstaklega um það í þeim myndböndum eða færslum sem birtast á samfélagsmiðlum. Þrír spænskir ferðamenn voru drepnir í maí þegar byssumenn skutu á þá og hóp heimamanna í Bamiyan. Hryðjuverkasamtök sem kenna sig við Íslamska ríkið lýstu ábyrgð á morðunum. Árið 2022 slösuðust fimm kínverskir ferðamenn þegar árás var gerð á vinsælt hótel í Kabúl. Þá var einn áhrifavaldur sem kallar sig Lord Miles hnepptur í varðhald af óljósum ástæðum í mars 2023 uns honum var sleppt úr haldi í október sama ár.

Skortir siðferði

Bent er á það í umfjöllun Daily Mail að líf íbúa, þá sérstaklega kvenna, hafi breyst mikið síðan Talíbanar tóku við völdum. Áður hafi þær getað stundað nám og vinnu en í dag séu þær að stóru leyti einangraðar heima við og blátt bann lagt við að þær eigi samskipti við aðra karla en eiginmenn eða ættingja.

Mail vísar svo í viðtal BBC við Mohammad Saeed, sem fer fyrir ferðamálum í landinu, þar sem hann sagðist eiga sér þann draum að Afganistan verði vinsælt hjá ferðamönnum og markmiðið væri að búa til einhvers konar ferðamannasprengju.

Ekki eru allir á eitt sáttir við það hvernig landið er kynnt hjá áhrifavöldum. Einn þeirra er Dr. Farkhondeh Akbari, sem yfirgaf Afganistan á 10. áratug síðustu aldar, þegar Talíbanar náðu völdum árið 1996. Hún er ómyrk í máli í garð þessara áhrifavalda og segir þá skorta siðferði. Hún geti ekki snúið heim til landsins og kvenkyns ættingjar hennar búi ekki við frelsi í landinu.

„Við erum að tala um að 50% af íbúum hafa engin réttindi. Við erum að tala um land þar sem aðskilnaðarstefna ríkir,“ segir hún og bætir við að almennt sé staða mannréttindamála í landinu mjög slæm. „Það gleður mig ef túristar fara til landsins, kaupa eitthvað af fólki út á götu sem kemur fjölskyldum þeirra til góða. En hver er kostnaðurinn við þetta? Það er verið að normalisera ógnarstjórn Talíbana.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Segjast hafa búið til „loftslagsvænt smjör“ á tilraunastofu og það bragðist eins og „ekta smjör“

Segjast hafa búið til „loftslagsvænt smjör“ á tilraunastofu og það bragðist eins og „ekta smjör“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Tók viðtöl við 70 foreldra barna sem hafa náð góðum árangri í lífinu – Þetta gerðu þau

Tók viðtöl við 70 foreldra barna sem hafa náð góðum árangri í lífinu – Þetta gerðu þau
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hótar að „sökkva“ Bretlandi með ofurhljóðfráum eldflaugum     

Hótar að „sökkva“ Bretlandi með ofurhljóðfráum eldflaugum     
Pressan
Fyrir 3 dögum

Uppruni sögusagnanna um gæludýraát innflytjenda afhjúpaður

Uppruni sögusagnanna um gæludýraát innflytjenda afhjúpaður
Pressan
Fyrir 4 dögum

Dularfullur hitasjúkdómur hefur orðið mörgum að bana

Dularfullur hitasjúkdómur hefur orðið mörgum að bana
Pressan
Fyrir 4 dögum

Suðurkóreski herinn óttast nektarmyndir og bregst nú við

Suðurkóreski herinn óttast nektarmyndir og bregst nú við