Í dag þekur ís um 98% eyjunnar og því er útlit hennar allt annað en fyrir milljón árum. Live Science segir að í gegnum tíðina hafi skoðanir verið skiptar um hvort Grænland hafi alltaf verið ísi þakið á síðustu 2,7 milljónum árum.
En í fyrrgreindu íssýni fundust steingervingar sem veita fyrstu sönnunina fyrir að miðhluti Grænlandsjökuls, ekki bara jaðrarnir, bráðnuðu fyrir löngu síðan. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vermont háskóla.
Paul Bierman, aðalhöfundur rannsóknarinnar, sagði í samtali við Live Science að þetta sé besta staðfestingin fram að þessu á að miðhluti Grænlandsjökuls hafi bráðnað og í staðinn hafi komið túndra með tilheyrandi vistkerfi.
Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu PNAS.
Íssýni, sem var rannsakað, var tekið 1993. Í því var fjöldi steingervinga, þar á meðal af sveppum, víði og skordýrum. En það sem þykir merkilegast er vel varðveitt fræ heimskautavalmúa.