Þúsundir Rússa sem búa í Kursk héraðinu hafa þurft að rýma heimili sín eftir að Úkraína réðst óvænt inn fyrir landamærin fyrr í þessari viku. Héraðsstjórinn Alexei Smirnov sagði í gær að aðstæður við landamærin væru flóknar en til að tryggja öryggi íbúa þá hefur Smirnov lýst yfir neyðarástandi í héraðinu og hafa íbúar á átakasvæðum verið látnir rýma heimili sín. Talið er að rýmingin nái til um 3 þúsund manns. Rússneski miðillinn Tass segir að fjórir íbúar hafi þegar látið lífið í átökunum.
Varahéraðssjórinn Andrei Belostotsky segir að herlið Úkraínu standi í stað og hafi ekki náð að sækja lengra inn í héraðið.
Varnarmálaráðuneyti Rússa greindi frá því á þriðjudaginn að 300 manna herlið frá Úkraínu hafi farið yfir landamærin með skriðdreka og brynvarðar herbifreiðar. Herliðið fór yfir landamærin nærri bænum Sudzan sem er um 640 kílómetrum frá Moskvu. Forseti Rússlands, Vladimir Putin, sakaði Úkraínu í gær um stigmögnun á átökunum.
Rússneskum embættismönnum ber ekki saman um hversu fjölmennt herlið Úkraínu er, en aðrar tölur hafa heyrst þar sem fjöldinn er sagður nærri 1.000 hermönnum.
Þetta útspil Úkraínu hefur komið nokkuð á óvart og ekki þótt ljóst hvað fyrir þeim vakir. Einn aðstoðarmaður Úkraínuforseta, Mykhailo Podolyak, tjáði sig þó um stöðuna í dag þar sem hann sagði stigmögnun í innrás Rússa í Úkraínu hafa kallað á þessi viðbrögð. Rússar hafi bætt í loftárásir, hernaðaraðgerðir, þvingaðar rýmingar og eyðileggingu innviða. Hafi þessar aðgerðir Rússa jafnvel náð til þeirra eigin yfirráðasvæða í Kursk og Belgorod.
A video of Russians surrendering en masse in the Kursk Region has been circulated in the Ukrainian media
The footage shows a drone allegedly destroying the Sudzha checkpoint. pic.twitter.com/1N7YKi1vQ7
— NEXTA (@nexta_tv) August 8, 2024
Talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, Matthew Miller, sagði við blaðamenn í gær að Bandaríkin hafi ekki verið vöruð við þessum fyrirætlunum Úkraínu.
„Við vissum ekki fyrirfram um þessa hernaðaraðgerð, en það er ekki óþekkt að Úkraína láti okkur ekki vita um áætlanir sínar fyrr en þær eru framkvæmdar. Þau standa í stríði. Við sköffum þeim vopn. Við gefum þeim ráð. En þegar kemur að herkænsku frá degi til dags, og hvaða aðgerða þau grípa til, þá er bara viðeigandi að þau taki þessar ákvarðanir.“
Miller sagði að samtal ætti sér nú stað milli Úkraínu og Bandaríkjanna um þessa hernaðaraðgerð en að svo stöddu sé ekki tímabært að greina frá því hver markmið aðgerðanna eru eða hvers konar aðgerð um ræðir. Það sé undir Úkraínu komið að upplýsa heiminn um slíkt. Hann tók eins fram að yfirlýsingar Pútíns um að aðgerðin feli í sér stigmögnum sé kaldhæðin í ljósi þess að Rússar hafi ráðist inn í Úkraínu til að byrja með og haft þar ólögmæta viðveru síðan árið 2014, en þar vísar Miller til innlimunar Rússa á Krímskaganum.
The AFU has advanced in Kursk Region by 10 km – ISW
Analysts write that Ukrainian forces have overcome at least 2 Russian defense lines, a stronghold and occupied Guevo, Gornal and Kurilovka.
Meanwhile, Ukrainian blogs write about 300 captured Russian servicemen. pic.twitter.com/wMNXERKN6t
— NEXTA (@nexta_tv) August 8, 2024
Málsmetandi aðilar á sviði hernaðarmála telja líklegt að Úkraína sé að freista þess að fá Rússa til að kalla hluta af herliði sínu frá Úkraínu til að verjast innrásinni í Kursk. Rússar hafi náð að sækja vel fram í austurhluta Úkraínu og þetta sé liður í að draga úr þeim krafti.
Nú séu Rússar í flókinni stöðu þar sem þeir samhliða reyna að mála innrás Úkraínu í Kursk sem stigmögnun en reyna á sama tíma að gera lítið úr alvarleikanum til að koma í veg fyrir óánægju og ótta meðal rússnesks almennings. Stjórnarráðið í Rússlandi, Kremlin, eigi nú á hættu að draga úr sínum eigin trúverðugleika með því að tala niður alvarleika innrásarinnar og smætta hernaðaraðgerðina með því að kalla hana hreinlega „ögrun“.
Mykhailo Podolyak sagði í beinni útsendingu fyrr í dag að hernaðaraðgerðin í Kursk myndi vonandi styrkja stöðu Úkraínu í friðarviðræðum við Rússa.
„Bregðast þau við einhverju öðru en ótta? Nei og það er kominn tími til að við viðurkennum þann veruleika. Rússar munu túlka allar málamiðlanir sem veikleika og uppgjöf. Við getum aðeins fengið eitthvað út úr þessum viðræðum ef þau skilja loks að þetta stríð er ekki að fara eins og þau vonuðu.“
Podolyak sagði enn fremur að innrásin í Kursk sendi Rússum skilaboð, og vonandi skjóti hún almenning þar skelk í bringu svo þau fari að sjá valdhafa sína í réttu ljósi.