Live Science skýrir frá þessu og segir að um tvö svæði sé að ræða þar sem eru einhverskonar ventlar þar sem heitt vatn streymir út í sjóinn sem og dularfullir málmar. Ventlarnir eru á 3 km dýpi suðvestan við Svalbarða.
Ventlarnir hafa fengið nöfn og eru þau sótt í norræna goðafræði. Það er engin tilviljun því svæðið sem þeir eru á heitir „Jötnar“ en það er um 1 km á lengd og 200 metrar á breidd. Þar eru bæði virkir og óvirkir ventlar.
Einn stærsti ventillinn, sem er með marga strompa og greinar, hefur fengið nafnið Yggdrasill en það er nafnið á lífsins tré í norrænni goðafræði. Annar ventill hefur fengið nafnið Níðhöggur sem var dreki í höggormslíki sem bjó í Yggdrasil og nagaði rætur trésins.
Niðurstaða rannsóknarinnar hefur verið birt í vísindaritinu Scientific Reports.