Hinn 31 árs gamli Hayden Selby var hvers manns hugljúfi að sögn unnustu hans, Katie Powell. Fjölskyldan var að undirbúa flutning til Illawarra í Ástralíu þegar Selby lést í hörmulegu slysi.
Föstudaginn 19. júlí síðastliðinn um kl. 16.10 rakst bíll á mótorhjól hans á M1 hraðbrautinni nálægt New Mount Pleasant Road suður af Sydney. Selby var að leiðbeina vinkonu þeirra, Kirsten Anthony, að nýju heimili þeirra þegar slysið varð. Keyrði hún á eftir Selby, á Toyota-jeppa og dró kassakerru fyrir aftan, þegar keyrði á mótorhjól hans. Hefur hún verið ákærð fyrir manndráp af gáleysi.
„Hayden var að hjálpa vini sínum að flytja á föstudaginn og ég sendi honum sms þar sem stóð: „Ég elska þig, keyrðu varlega og passið hvort annað,“ sagði Powell við 7News.
Segist hún hafa farið að hafa áhyggjur þegar nokkrar klukkustundir voru liðnar og hún fékk ekkert svar frá Selby. Um klukkan 18 fékk hún símtal frá einum af vinum hans sem greindi henni frá andláti hans.
„Tíminn síðan þá hefur þetta bara verið ein stór þoka. Ég fer með börnin mín í skólann á hverjum degi og eftir það veit ég ekki hvað ég á af mér að gera.“
Samanlagt átti parið 11 börn og tvö barnabörn, yngsta barnið þeirra er átta mánaða gamalt.
Powell lýsir unnusta sínum sem óeigingjörnum „verndara“ og „mjúkum risa“ sem hafi alltaf hjálpað fjölskyldu og vinum í neyð. „Hann var svo mikill bangsi, ljúfur risi og verndari. Hann var sá sem vinir hans gátu reitt sig á fyrir hvað sem er. Það var ekkert sem hann myndi ekki gera fyrir vini og fjölskyldu,“ sagði Powell.
Powell stofnaði söfnun á GoFundMe til að safna fyrir jarðarför Selby. Rannsókn á slysinu er enn í gangi.
„Þessi fallegi maður var alltaf fyrstur til að bjóða fram aðstoð þegar einhver þurfti hjálp og hann lagði sig allan fram við að gefa börnunum og mér það sem við þurftum og náðum að búa til saman.
Ég bara veit ekki hvernig ég á að halda áfram. Ég er nýorðin einstæð móðir með 11 börn og tvö barnabörn. Maðurinn sem hugsaði vel um alla mikilvægu hlutina í lífi okkar er farinn.“