Konan, hin sextuga Denise Prudhomme, mætti til vinnu klukkan 7 að morgni síðastliðinn föstudag og skannaði sig inn með starfsmannaskírteini. Hún notaði kortið ekki til að skanna sig út og var það ekki fyrr en á þriðjudeginum, fjórum dögum eftir að hún mætti til vinnu, að hún fannst látin við skrifborðið sitt.
Virðist hún hafa dáið einhvern tímann á föstudeginum án þess að nokkur tæki eftir því og þá höfðu aðstandendur hennar ekki tilkynnt um að hennar væri saknað.
Dánarorsök liggur ekki fyrir og segir lögregla að ekki leiki grunur á saknæmu athæfi. Í fréttum bandarískra fjölmiðla kemur fram að einhverjir starfsmenn hafi fundið slæma lykt á skrifstofunni áður en Denise fannst en ekki dottið í hug að lyktin væri vegna líks.
Denise vann á þriðju hæð hússins og segir talsmaður Wells Fargo að skrifborð hennar hafi ekki verið í alfaraleið á hæðinni.