Ef samfarirnar sjálfar, það er að segja limur er inni í leggöngum eða endaþarmi, standa lengur en í 30 mínútur þarf að skipta um smokk. Metro skýrir frá þessu og hefur þetta eftir Bhavini Shah, lækni. Hann sagði að núningur veiki smokkinn og auki líkurnar á að hann rifni. Ef samfarirnar vari skemur en 30 mínútur, þá sé allt í fínu lagi en ef þær taka lengri tíma sé betra að setja nýjan smokk á. En hann benti einnig á að það skipti auðvitað máli hversu kraftmiklar samfarirnar séu.
Eflaust dettur sumum í hug að þetta sé nú hægt að leysa með því að setja tvo smokka á í upphafi og þannig sé hægt að sleppa við að þurfa að gera hlé á samförunum. En það gengur ekki að sögn Shah. Hann sagði að það að nota tvo smokka í einu sé hættulegra en að nota einn því smokkarnir nuddist saman og núningurinn geti hugsanlega gert gat á þá. „Þetta á einnig við um að nota karl- og konusmokk samtímis,“ sagði hann.