fbpx
Mánudagur 22.júlí 2024
Pressan

Puttaferðalangur sem slapp lifandi frá raðmorðingja leitar svara – „Hvers vegna myrti hann mig ekki?“

Pressan
Þriðjudaginn 9. júlí 2024 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steve Fishman var 19 ára táningur árið 1975 og ákvað að húkka sér far frá Bostin yfir til Connecticut þar sem hann hafði sumarstarf hjá tímariti. Ferðin sóttist vel og átti hann aðeins stuttan spöl eftir þegar hann stakk út þumlinum og fékk grænan Buick sedan bíl til stoppa fyrir sig. Ökumaðurinn kynnti sig sem Red og bauð Steve að setjast inn. Ökumaðurinn var vingjarnlegur, með skalla sem var þó falinn með þunnu rauðu hári.

Það sem ungi maðurinn vissi ekki þá er að Red þessi var enginn góðviljaður maður. Hann hét réttu nafni Robert Frederick Carr III og var raðmorðingi sem myrti helst barnunga puttaferðalanga.

Af hverju þau en ekki hann?

Þremur árum áður nauðgaði Carr og myrti tvo 11 ára drengi og 16 ára stúlku sem höfðu húkkað far með honum. Þegar hann stöðvaði bifreið sína og bauð Steve far hafði lögregla ekki enn haft hendur í þunnu hári hans fyrir þau voðaverk, en Carr var þó á skilorði eftir að hafa afplánað dóm í Connecticut fyrir nauðgun.  Bíltúrinn varði í um korter. Carr var hress og málglaður á leiðinni. Hann sagði Steve að hann hefði nýlega afplánað dóm. Ungi maðurinn fylltist áhuga enda var hann að hefja sumarstarf hjá fjölmiðli. Hann sá fyrir sér viðtal við þennan fyrrverandi fanga um hvernig það væri að aðlagast lífinu að nýju. Þegar Steve var kominn á áfangastað komst hann að því að ekki var hægt að opna farþegahurðina innan frá. Hann þurfti að opna bílrúðuna og opna bílinn að utan. Mennirnir kvöddust, Steve hélt í vinnuna og Carr keyrði áfram sína leið.

Nokkrum mánuðum síðar las Steve í fjölmiðlum að Carr hefði verið  handtekinn eftir að hafa reynt að nauðga puttaferðalangt. Við yfirheyrslu játaði hann að hafa nauðgað rúmlega tug ferðalanga og auk þess hefði hann myrt fjögur börn. Steve varð furðulostinn. Hann hugsaði til baka til bíltúrsins og velti því fyrir sér hvers vegna hann hefði ekki spurt Carr fyrir hvað hann sat inni. Svo fór hann að velta fyrir sér hvers vegna hann væri lifandi. Af hverju hafði Carr ekki myrt hann.

Hann leitaði því á heimili raðmorðingjans og hitti þar fyrir dóttur Carr, Donnu. Hann bað hana að koma viðtalsboði til föður síns frá manninum sem hann myrti ekki. Carr féllst á að veita viðtal og hélt þar engu undan. „Ein spurning sem ég vildi fá svar við var hvers vegna hann myrti mig ekki, það virðist vera furðuleg spurning, en ég þurfti að vita þetta. Hann bara ypti öxlum og sagði: Mér fannst þú of stór.“

Of hrottlegt til að koma í orð

Þetta viðtal átti eftir að koma Steve á kortið sem blaðamanni en mörgum árum síðar, þegar hann hafði sjálfur stofnað til fjölskyldu fóru að renna á hann tvær grímur um hvort hann hefði nálgast viðtalið rétt. Hafði hann málað Carr upp með of manneskjulegum hætti? Hafði hann ekki áttað sig á því að þarna var skrímsli á ferðinni?

Verðlaunablaðamaðurinn Edna Buchanan skrifaði í bók sinni um Carr að hann væri „illkvittnasta manneskja sem ég hef hitt“. Rannsóknalögreglumaður sem rannsakaði mál Carr sagði í viðtölum að glæpir Carr væru svo hrottalegir að hann gæti ekki komið því í orð. Á sínum langa ferli hefði hann aldrei komist í kast við jafn ógeðslegan barnaníðing.  Steve ákvað því að kafa dýpra ofan í saumanna á málinu.

Hann hafði því aftur samband við Donnu og bauð henni að gera með sér hlaðvarp. Þá komst hann að því að Donna, sem var aðeins 12 ára þegar faðir hennar var handtekinn, hafði allt sitt líf leitað svara við sömu spurningum. Þau tóku því höndum saman og lögðust yfir yfirheyrslur, bréf og allt annað sem tengdist Carr.

Veikur eða skrímsli?

Donna lýsir því að hún hafi lengi verið í afneitun. Hún átti góðar minningar með föður sínum og lengi gat hún ekki trúað því að hann væri sekur. Árum saman skrifaði hún föður sínum bréf þar sem hún sagðist sakna hans og elska. Það var ekki fyrr en faðir hennar fór að klæmast við hana að hún áttaði sig á því að hann væri vondur maður. Hún varð í kjölfarið dauðhrædd við hann og óttaðist ekkert meira en að honum yrði sleppt úr fangelsi.

Hún skipti um nafn og stofnaði til sinnar eigin fjölskyldu en fjölskylduharmleikurinn fylgdi henni hvert sem hún fór. Þetta kom upp í atvinnuviðtölum og svo neyddist hún til að deila sögunni með sínum eigin börnum svo þau kæmust ekki að því með öðrum hætti.  Hún segist óska þess heitast í dag að fólk sýni fjölskyldum morðingja samkennd. Þetta sé fólk sem gengur í gegnum óbærilegan sársauka og sorg en megi ekkert tjá sig um það. Þetta er fólk sem er útskúfað og litið hornauga þrátt fyrir að hafa ekkert af sér gert.

„Ég lokaði á þetta allt í svo langan tíma. Ég bara gróf yfir þetta. Það var gott að geta loks rætt þetta með hreinskilnum hætti.“

Donna lýsir því að hún og Steve hafi freistað þess að fá því svarað hvort Carr hafi verið veikur á geði eða hreinlega illur inn að beini. Niðurstaðan þeirra var hrein og bein, Carr var skrímsli.

CNN greinir frá

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 5 dögum

Eftirsóttur, eftirlýstur, alræmdur – Piparsveinninn loksins í fangelsi eftir að hafa sloppið fimm sinnum með skrekkinn

Eftirsóttur, eftirlýstur, alræmdur – Piparsveinninn loksins í fangelsi eftir að hafa sloppið fimm sinnum með skrekkinn
Pressan
Fyrir 5 dögum

Loftslagsbreytingar hafa áhrif á tímann samkvæmt nýrri rannsókn – „Þetta er vitnisburður um alvarleika loftslagsbreytinga“

Loftslagsbreytingar hafa áhrif á tímann samkvæmt nýrri rannsókn – „Þetta er vitnisburður um alvarleika loftslagsbreytinga“
Pressan
Fyrir 1 viku

Neanderdalsmenn önnuðust 6 ára þroskaheft barn

Neanderdalsmenn önnuðust 6 ára þroskaheft barn
Pressan
Fyrir 1 viku

600 ára gamall texti líkist vel þekktum texta frá síðari tímum

600 ára gamall texti líkist vel þekktum texta frá síðari tímum