Bresk yfirvöld hafa áhyggjur af flaki herskipsins SS Richard Montgomery sem legið hefur í votri gröf við ósa Thames-árinnar síðan undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Í flaki herskipsins, sem stundum er nefnt Dómsdagsflakið, eru enn rúmlega 1.400 tonn af sprengiefnum sem hafa legið þar óhreyfð síðan herskipið strandaði, brotnaði í tvennt og sökk þann 20. ágúst 1944.
Nýjar rannsóknir á flakinu benda hins vegar til þess að flakið sé að grotna niður hraðar en búist var við og aukin hætta er á gríðarlegri sprengingu sem gæti valdið gríðarlegu tjóni. Til að mynda óttast yfirvöld að slík sprenging gæti orsakað gríðarlega flóðbylgju upp Thames-ána með ófyrirséðum afleiðingum. Í fréttum breskra miðla kemur fram að þróunin hafi verið afar hröð undanfarið árið og aðgerða sé þörf.
Flakið er þekkt kennileiti hafnarbæjarins Sheerness en þaðan má enn sjá í möstur skipsins. Núna undirbúa yfirvöld meðal annars að fjarlægja þau út af hættu á því að ef þau falli þá gætu þau orsakaði sprengingu.