Donald Trump var aftur kjörinn forseti Bandaríkjanna þann 5. nóvember. Nú þegar tvær vikur eru liðnar frá kjördegi telur fjölmiðlamaðurinn Piers Morgan rétt að vinstri menn hætti að barma sér yfir niðurstöðunni.
„Ég er kominn með nóg af þessu. Geta þau ekki bara haldið kjafti?,“ spurði Morgan þegar hann ræddi við Fox&Friends í gær. „Þau eru að snoða á sér hausinn, öskra og birta myndbönd á TikTok, eða þau eru að afneita kærustum sínum, sem eru repúblikanar, fyrir að voga sér að kjósa forseta sem sigraði með miklum yfirburðum, og þau eru að flýja samfélagsmiðilinn X“
Vísaði Morgan þar til femíníska gjörningsins sem kallast 4b. Gjörninginn má rekja til jaðarsamfélags femínista í Suður Kóreu sem hafa ákveðið að slaufa karlmönnum úr lífi sínu. Þar með ætla þær ekki að eiga í ástarsamböndum við karlmenn, ekki sofa hjá þeim, ekki giftast þeim og ekki fæða þeim börn. Talið er að fáeinar þúsundir kvenna séu að fylgja þessari stefnu þar í landi, en töluvert hefur þó verið fjallað um hana í fjölmiðlum. Vilja þá margir tengja þennan gjörning við sögulega lágt hlutfall fæðinga í landinu, sem er þó ekki rétt enda er fæðingartíðni að minnka víða í heiminum og eru skýringarnar á því fjölþættar og flóknar. Margar bandarískar konur á TikTok hafa þó lýst því yfir að ætla að fylgja 4B-stefnunni, þá einkum af ótta við að ríkisstjórn Trump ætli að svipta þær réttindum og þvinga þær til að vera mæður. Ekki liggur fyrir hversu mikil áhrif þessi hreyfing hefur raunverulega haft, en hún hefur þó farið fyrir brjóstið á mörgum hægri mönnum.
Morgan lét einnig fara í taugarnar á sér að vinstri menn séu að segja skilið við miðilinn X, sem er í eigu auðkýfingsins Elon Musk sem er í dag náinn samstarfsmaður Trump.
„Þau eru að hætta á X því þau segja miðilinn eitraðan og þau geti ekki afborið það lengur. Það sem þau meina í raun og veru er að þau eru komin með nóg af því að fólk sé að senda þeim skilaboð þar sem það hlakkar yfir því hversu rangt vinstri menn höfðu fyrir sér um kosningarnar. Kosningarnar voru fordæming á öllu því sem þau standa fyrir. Orðið rétttrúnaður var dregið inn í skúrinn, hakkað niður og þau bara geta ekki horfst í augu við það.“
Þessi ummæli Morgan koma í beinu framhaldi af grein sem hann birti hjá The New York Post undir fyrirsögninni: Skilaboð til öskurgrenjandi rétttrúnaðarsinna sem eru enn að missa sig yfir sigri Trump: Haldið kjafti. Þar sagði Morgan að þessi viðbrögð hafi fyrst verið fyndin en þau séu orðin þreytandi í dag. Sakar hann frjálslynda um að vera fasta í miðju frekjukasti og það sé hætt að vera fyndið.