Wall Street Journal skýrir frá þessu. Ef þetta er rétt má segja að eplið falli ekki langt frá eikinni því samkvæmt því sem stjörnublaðamaðurinn Bob Woodward segir, þá hefur Donald Trump, sem Musk styður heilshugar til embættis forseta, einnig rætt reglulega við Pútín.
Wall Street Journal byggir frétt sína á upplýsingum frá ónafngreindum heimildarmönnum. Tveir af heimildarmönnunum segja að Pútín hafi beðið Musk um að slökkva á Starlink gervihnattakerfinu yfir Taívan í greiðaskyni við Kínverja sem líta á Taívan sem hluta af Kína.
Musk á Starlink í gegnum geimfyrirtækið sitt SpaceX og hann ræður öllu um hvert gervihnöttunum er beint. Hann hefur áður sætt gagnrýni fyrir þessi völd sín yfir þeim, sérstaklega í tengslum við stríðið í Úkraínu.
Í vor sagði Kyrylo Budanov, yfirmaður leyniþjónustu úkraínska hersins, að Starlink gervihnettirnir væru notaðir af rússneskum hermönnum til fjarskipta.
Musk var harðlega gagnrýndur á síðasta ári þegar hann neitað að verða við beiðni Úkraínumanna um að kveikja á þeim svo þeir gætu notað þá.