Ramzan Kadyrov, leiðtogi Téténa, lofaði í dag hefndum fyrir drónaárás sem olli eldsvoða í þjálfunarbúðum hers hans. Þetta er ekki fyrsta drónaárásin sem Úkraína gerir á Rússland, en sú fyrsta sem beinist gegn sjálfsstjórnarhéraðinu Téténiu.
„Þau bitu okkur – við munum tortíma þeim,“ sagði Kadyrov við blaðamenn í myndbandi sem rússneski miðillinn RIA hefur birt. „Í nánustu framtíð munum við hefna okkar með slíkum hætti að þau hafa aldrei vitað annað eins.“
Kadyrov hafði áður greint frá því á Telegram að í árásinni hafi eldur kviknað í þaki mannlausrar byggingar í þjálfunarbúðum téténska hersins. Engan sakaði í árásinni.