Í tilkynningu frá kínverskum yfirvöldum fordæma þau þessi vopnaviðskipti og hafa gert bandarískum stjórnvöldum grein fyrir afstöðu sinni. Þau segjast ætla að grípa til ákveðinna mótaðgerða vegna þessa og grípa til nauðsynlegra aðgerða til að verja sjálfstæði Kína, tryggja öryggi landsins og yfirráð yfir kínversku landsvæði.
Kínverska kommúnistastjórnin lítur á Taívan, sem er lýðræðisríki, sem hluta af Kína og hefur haft í hótunum um að leggja eyríkið undir sig með hervaldi ef þörf krefur.
Í umræddum vopnapakka eru meðal annars háþróuð loftvarnarkerfi, flugskeyti og ratsjárkerfi.
Kínverjar hafa aukið hernaðarleg umsvif sín við Taívan mjög á síðustu fimm árum en mikil spenna er á milli ríkjanna þessi misserin.