Örsmár dróni flaug inn um glugga á sundurskotnu húsi í Gaza og um leið beindist myndavél hans að særðum vígamanni sem sat í hægindastól. Innan um múrsteina og þung húsgögn, sem lágu eins og hráviði, hallaði hann sér að hálfu aftur á bak á meðan blóðið streymdi niður í stólinn.
Andlit hans var næstum alveg hulið með klút en augun störðu stíft á drónann sem flaug hægt og rólega nær honum. Að lokum grýtti maðurinn staf að honum.
Skömmu síðar lauk lífi mannsins, hins 61 árs Yahya Sinwar, þegar tvær 120 mm fallbyssukúlur þeyttust inn í húsið. Þeim var skotið úr skriðdreka. Þar með var óvinur Ísraels númer eitt fallinn.
Það voru hermenn úr 828. Bislamach herdeild sem höfðu uppi á Sinwar. Í fyrstu höfðu þeir ekki hugmynd um hver það var sem þeir voru með í sigtinu.
Herdeildin, sem samanstendur af nýliðum og reyndari mönnum úr varaliðinu, var við hefðbundin störf í Tal al-Sultan í Rafah, nærri egypsku landamærunum, á miðvikudaginn þegar hermennirnir komu auga á þrjá grunsamlega menn sem hlupu á milli húsa.
Ísraelsmennirnir skutu á þá og særðu einn þeirra. Hann flúði inn í sundurskotið hús og kom sér fyrir í hægindastól.
Það var ekki fyrr en fallbyssukúlunum hafði verið skotið á húsið, sem hermennirnir áttuðu sig á hvern þeir höfðu skotið.
Þeir sendu dróna inn í húsið og fundu þá líkið. Andlit þess var hulið með klút. Það var ekki fyrr en þeir sáu eyrun, sem voru ansi sérstök, sem þeir áttuðu sig á að þetta gæti verið líkið af Sinwar.
Hermenn úr annarri herdeild fóru síðan inn í húsið og tóku myndir af líkinu, ekki síst tönnunum því Sinwar var með áberandi bil á milli framtannanna. Þeir skáru síðan fingur af líkinu til að hægt væri að gera DNA-rannsókn.
Hún staðfesti að þetta var líkið af Sinwar.