Forsetaframbjóðandinn Donald Trump ákvað að taka vakt á skyndibitastaðnum McDonalds. Þetta gerði hann fyrst og fremst þar sem hann þverneitar því að trúa að mótframbjóðandi hans, Kamala Harris, hafi starfað á McDonalds þegar hún var í háskóla.
Framboð Trump hefur birt myndband af þessu uppátæki og þar má sjá forsetafambjóðandann djúpsteikja franskar og afgreiða í bílalúgu. Svo virðist sem að töluverður mannfjöldi hafi safnast í kringum skyndibitastaðinn þar sem forsetanum var ákaft fagnað.
„Ég er að leita mér að vinnu,“ segir forsetinn fyrrverandi í myndbandinu. „Og hefur mér alltaf langað að vinna á McDonald’s, en ég gerði það aldrei. Ég er að bjóða mig fram gegn manneskju sem segist hafa unnið hér, en það reyndist vera algjör lygasaga“
Frambjóðandinn sést svo, í svuntu yfir hvítri skyrtu og einkennisbindinu sínu rauða, opna bílalúguna og ræða við viðskiptavin: „Þetta er flottur hópur. Hæ öll! Ég er að skemmta mér konunglega með öllum hérna. Sjáið allar falsfréttirnar þarna úti. “
@realdonaldtrumpI’ve offically worked longer at McDonalds than Kamala!
Fox fréttastofan fylgdist með uppátæki frambjóðandans og sýndi að þúsundir manna höfðu safnast saman fyrir utan McDonald’s. Trump tilkynnti viðstöddum að hann hefði nú unnið 15 mínútum lengur á McDonald’s en Harris, en fréttakona Fox tók fram að engar sannanir séu þó fyrir því að Harris hafi aldrei starfað á skyndibitastaðnum. Fréttakona spurði Trump hvernig hann nái best til kjósenda sinna. „Ég held ég geri það bara með því að vera ég sjálfur,“ svaraði Trump.