Fjölmörg mál hafa komið upp í Bandaríkjunum á síðustu árum þar sem fólk telur sig hafa séð fljúgandi furðuhluti. Flugmenn bandaríska flughersins tóku meira að segja upp myndband, sem búið er að sannreyna að sé ósvikið, fyrir nokkrum árum af einhverju dularfullu loftfari en umrætt myndband hefur vakið mikla athygli.
Elon Musk hefur litla trú á því að þarna séu geimverur á ferðinni og telur raunar að þarna sé um að ræða háleynilegar tilraunir með loftför bandaríska hersins.
Geta ekki skýrt 143 af 144 málum – Geta ekki útilokað tilvist þeirra
Musk var í viðtali við Tucker Carlson í vikunni þar sem komið var meðal annars inn á þetta. Musk er mikill áhugamaður um geiminn og í störfum sínum fyrir SpaceX segist hann aldrei hafa séð nein sönnunargögn um tilvist geimvera.
„Það er margt sem við vitum ekki. Hvaðan komum við og hvar eru geimverurnar,“ spurði Musk og bætti við að í himinhvolfinu væru sex þúsund Starlink-gervihnattadiskar og ekki einn þeirra hafi komist í námunda við eitthvað sem telst óeðlilegt, fljúgandi furðuhlut eða eitthvað slíkt.
Kveðst Musk telja líklegt að bandaríski herinn sé stöðugt að prófa og þróa háleynileg loftför, vopn og annað slíkt og það sé ástæðan fyrir mörgum tilkynningum um fljúgandi furðuhluti að undanförnu. Leyndin yfir þessum verkefnum sé svo mikil að jafnvel æðstu menn í hernum viti ekkert um þau.
Musk segist lofa því að hann muni segja almenningi frá því ef gervihnettir Starlink taka eftir einhverju óvenjulegu á sveimi í kringum okkur. „Um leið og ég sé einhver sönnunargögn um tilvist geimvera mun ég birta það strax á X. Það verður sennilega vinsælasta færsla sögunnar,“ segir Musk sem jafnframt er eigandi X, áður Twitter.