The Guardian segir að ríkisstjórnin, sem er miðju-hægri samsteypustjórn sem nýtur stuðnings Svíþjóðardemókratanna, sem eru lengst til hægri, hafi tilkynnt að næstu níu mánuði verði skoðað hvaða áhrif algjört bann við betli muni hafa. Ef niðurstaðan verði að það sé vænlegt að setja slíkt bann, muni lagafrumvarp þar um hugsanlega verða lagt fram.
Linda Lindberg, þingflokksformaður Svíþjóðardemókratanna, sagði á fréttamannafundi í síðustu viku að fólk, sem segist vera frá öðrum ESB ríkjum, „komi til að betla utan við verslanirnar okkar“. Svíþjóð geti ekki verið „samviska Evrópu“.
Stockholms Stadsmission, sem eru kristileg samtök sem aðstoða fólk í viðkvæmri stöðu í Stokkhólmi, fordæma hugmyndir ríkisstjórnarinnar. Talskona þeirra sagði að það að banna betl eða gera fólki að sækja um leyfi til að mega betla, sé aðeins tilflutningur á vandanum í tilgangslausri tilraun til að gera fátækt útlæga.
Hún sagði einnig að samtökin telji að það sé hægt að draga úr þeirri viðkvæmu stöðu sem þetta fólk er í með því að draga úr fátækt á skipulagðan hátt og með því að vinna gegn mismunun, bæði í upprunalöndum fólksins og innan ESB. Þetta sé langtíma verkefni.