Það hljómar undarlega að landflótta Norður-Jóreumenn vilji fara heim aftur en það gerist þó stundum. Það er erfitt fyrir okkur, sem búum í lýðræðisríki og höfum nóg að bíta og brenna, að trúa að einhver vilji fara aftur til einræðisríkis þar sem almenningur á á hættu að „svelta í hel eða vera tekinn af lífi fyrir að fylgja ekki reglum“ eins og BBC orðar það.
En þannig er það nú samt og eitt slíkt mál kom upp í síðustu viku. The Guardian segir að þá hafi suðurkóreskir landamæraverðir handtekið Norður-Kóreumann eftir að hann ók stolnum strætisvagni á lokunarbúnað á brú nærri landamærum Kóreuríkjanna.
Hann stal strætisvagninum með það að markmiðið að aka honum yfir til norðurs, heim. Hann flúði þaðan 2011.
Suðurkóreska lögreglan segir að maðurinn hafi búið við krappan fjárhag í Suður-Kóreu en hann starfaði í byggingarvinnu þar. Einnig er hann sagður sakna fjölskyldu sinnar í Norður-Kóreu.
Maðurinn er í haldi lögreglunnar og á yfir höfði sér ákæru fyrir brot gegn öryggislögum landsins og þjófnað.
Frá 2012 til 2022 reyndu um 30 Norður-Kóreumenn að komast aftur heim frá Suður-Kóreu.
Frá lokum Kóreustríðsins, sem stóð yfir frá 1950 til 1953, hafa rúmlega 34.000 Norður-Kóreubúar flúið til Suður-Kóreu.