Ítalskir fjölmiðlar segja að fólkið hafi gengið í hjónaband í ágúst. Bankinn hafði áður lagt blátt bann við að starfsmenn gengu í hjónaband með öðrum starfsmönnum.
Nýgiftu hjónunum var gefin 30 daga frestur til að leysa málið með því að annað þeirra myndi segja upp hjá bankanum. Fresturinn rann nýlega út án þess að þau færu eftir kröfu bankans og var þeim þá báðum sagt upp störfum.
Markmið bannsins er að koma í veg fyrir frændhygli og hagsmunaárekstra og annað sem getur skaðað orðspor bankans.
Þessi regla var tekin upp í apríl eftir að hafa verið í undirbúningi um langa hríð. Samkvæmt reglunni mega starfsmenn bankans ekki heldur ganga í hjónaband með fólki sem starfar hjá öðrum stofnunum Vatíkansins.