Steinarnir eru í Canaima þjóðgarðinum í suðausturhluta landsins. Fornleifafræðingar hafa fundið svipuð steinlistaverk annars staðar í Suður-Ameríku en nýfundnu listaverkin „eru eftir áður óþekkt menningarsamfélag“ sagði José Miguel Pérez-Gómez, fornleifafræðingur við Simón Bolívar háskólann í Caracas, að sögn Live Science. Hann stýrir rannsókninni.
Sumar af myndunum á steinunum voru teiknaðar með rauðu og mynda rúmfræðilegar myndir á borð við punktaröð, X í línu, stjörnulagað mynstur og beinar línur sem tengja ýmis form. Einnig eru einfaldar myndir af laufum og fólki.
Pérez-Gómez sagði að ekki sé vitað af hverju fólk hafi gert þessi listaverk og þess utan sé útilokað að lesa hugsanir fólks sem var uppi fyrir mörg þúsund árum en augljóst sé að myndirnar hafi trúarlega merkingu. Sumar tengist kannski fæðingum, sjúkdómum, endurnýjun náttúrunnar eða góðri veiði. Staðurinn, þar sem listaverkin voru gerð, hafi líklega haft ákveðna þýðingu, eins og kirkjur hafa þýðingu fyrir fólk í dag.
Ekki er vitað með vissu hversu gömul þessi listaverk eru en Pérez-Gómez sagðist telja að þau séu eldri en 4.000 ára en svipuð steinlistaverk, sem eru um 4.000 ára, hafa fundist í Brasilíu.