Skákkonan sem um ræðir heitir Amina Abakorova og er fertug. Á upptökunni úr eftirlitsmyndavélinni sést hún ganga inn í tómt skákherbergi og dreifa efni, kvikasilfri að talið er, yfir skákborðið sem átti að nota í leik hennar gegn Umayganat Osmanova.
Þegar skák þeirra hófst kvartaði Osmanova undan ógleði og svima. Hún fór á sjúkrahús eftir skákina og er við góða heilsu í dag.
Lögregla handtók Aminu eftir að hafa farið yfir upptökurnar og segir Sazhid Sazhidov, íþróttamálaráðherra Dagestan, þar sem keppnin fór fram, að honum sé mjög brugðið vegna málsins en kveðst treysta því að lögregla rannsaki málið til fulls.
Amina er sögð hafa tjáð sig um málið við rússneska fjölmiðla þar sem hún virtist játa að hafa eitrað fyrir Osmanovu. Er haft eftir henni að hún hafi einungis viljað slá hana út af laginu en ekki valda alvarlegum veikindum. Í frétt Chess.com kemur fram að Osmanova hafi snúið aftur til leiks á mótinu og að lokum landað 2. sætinu.