Albert, sem er fyrrverandi lögreglumaður í Kaliforníu, skilaði sér ekki heim úr gönguferð á eyjunni Amorgos og hefur leit að honum ekki borið neinn árangur. Debbie segir að yfirvöld hafi lítið sem ekkert gert til að leita hans og hafa vinir og vandamenn flykkst til Grikklands til að taka þátt í leitinni.
„Það er ógeðslegt hvernig komið hefur verið fram við okkur,“ segir Debbie í samtali við The Post.
Að minnsta kosti sex ferðamenn hafa týnst eða látist á grísku eyjunum á síðustu dögum og í hópi þeirra er breski sjónvarpslæknirinn Michael Mosley sem fannst látinn eftir nokkurra daga leit fyrir skemmstu. Miklir hitar hafa verið á svæðinu síðustu vikur þar sem hitinn hefur náð hátt í 40 gráðum.
Debbie var sjálf stödd í Bandaríkjunum þegar tilkynnt var um hvarf Alberts og lagði hún á sig 32 tíma ferðalag til Grikklands til að taka þátt í leitinni. Með í för var bróðir Alberts og tveir sérhæfðir bandarískir leitarmenn.
Debbie segist afar ósátt við það hversu litla áherslu grísk yfirvöld leggja á að finna Albert. Bendir hún á að þyrlu hafi verið flogið yfir eyjuna í um tvær klukkustundir á miðvikudag í síðustu viku. Síðan þá hafi ekkert gerst þrátt fyrir loforð um að senda dróna og sérhæfða leitarhunda til leitar.
Albert er vanur göngumaður en hann hélt af stað klukkan sjö að morgni þriðjudags og átti gönguferðin að taka um fjórar klukkustundir.