CBS segir að samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni hafi líkamshlutarnir fundist við gönguleið, kirkjugarð og námu í Slatington.
Gavin Holihan, saksóknari í Lehigh County, sagði á fréttamannafundi að sumir líkamshlutarnir hefðu verið í ruslatunnum við Fairview kirkjugarðinn í Slatington. Aðrir hefðu fundist við D&L gönguleiðina og í námu nærri Welshtown Road.
Lögreglan hóf leit að Hittinger eftir að vinur hans tilkynnti ríkislögreglunni að hann væri horfinn. Ekkert hafði heyrst frá honum í „óvenjulega“ langan tíma að sögn vinarins.
Leit lögreglunnar hófst síðdegis þann 13. maí en vinir hans höfðu hvorki séð hann né heyrt frá honum í tvo sólarhringa.
Rannsókn lögreglunnar leiddi lögregluna að heimili Hittinger og meðleigjanda hans, Moser, en Hittinger var nýfluttur inn til hans.
Lögreglan fékk húsleitarheimild og fann þar ýmis sönnunargögn, þar á meðal hár og mikið magn af blóði. Þetta tengdi Moser, sem er 33 ára, við málið. Auk þess fannst meðal annars sög og blóðugur fatnaður.
Lögreglan segir að greinilegt hafi verið að breytingar hafi verið gerðar „í skyndi“ í kjallaranum til að reyna að leyna blóðinu.
Moser játaði síðan að hafa myrt Hittinger með því að kyrkja hann og berja með hamri í höfuðið. Þetta gerði hann í kjallaranum.