Børsen segir að úrið sé af tegundinni Rolex Daytona Cosmograph ref.6263 en þetta er íþróttaúr úr stáli og er skeiðklukka í því.
„Það var 30-40% afsláttur. Þegar ég skoðaði það betur sá ég að þetta var flott úr,“ sagði Jens, sem er danskur, í samtali við Børsen. Hann stóðst ekki freistinguna og keypti úrið og greiddi sem svarar til 54.000 íslenskum krónum fyrir það.
Úr af þessari tegund urðu mjög vinsæl, sérstaklega eftir að Hollywoodstjarnan Paul Newman byrjaði að ganga með eitt.
Jens gekk með úrið næstu 48 árin og var oft stoppaður á götu úti af fólki sem vildi dást að því.
En þegar danskur úrakaupmaður varaði hann við að ganga með úrið, vegna þess hversu verðmætt það væri, hætti hann því og kom því fyrir í bankahólfi.
En honum fannst ekki rétt að geyma það þar og ákvað því að selja það.
Það var Japani sem keypti úrið á uppboði í Genf, borginni sem Jens keypti úrið í fyrir rúmri hálfri öld, og greiddi sem svarar til 54 milljóna íslenskra króna fyrir það.