David var nýlega dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir að hafa myrt hana. Hann játaði að hafa grafið hana lifandi í gröf sem hann tók nærri heimili þeirra í Yavapai County í Arizona í Bandaríkjunum.
David játaði morðið áður en réttarhöld yfir honum áttu að hefjast og þar með gat dómari kveðið upp dóm yfir honum án þess að saksóknari gerði samning við hann um að játa.
David, sem er 62 ára, var dæmdur í ævilangt fangelsi án möguleika á reynslulausn. Hann mun því eyða því sem hann á eftir ólifað í fangelsi.
Auk þess að vera dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir morðið, var hann dæmdur í 16 og hálfs árs fangelsi fyrir mannrán, fölsun og svik. Sky News skýrir frá þessu.
Lögreglan segir að Sandra hafi horfið í maí 2017 en á þeim tíma stóð hún í skilnaði við David. Þau voru skilin að borði og sæng en bjuggu enn í sama húsinu með tveimur ungum dætrum sínum.
Lík hennar fannst bundið og með límband fyrir munninum, í gröf á afskekktu svæði norðan við Prescott.
Niðurstaða krufningar var að hún hafði verið grafin lifandi. Rannsókn lögreglunnar leiddi í ljós að Sandra hafði barist harkalega um eftir að hún var sett í gröfina og geti hafa verið með meðvitund í allt að fimm mínútur.
Símagögn sýndu að David var á svæðinu við gröfina nokkrum dögum áður en Sandra hvarf og sama kvöld og hún hvarf.
Rannsókn lögreglunnar leiddi einnig í ljós að hann hafði falsað undirskrift Söndru á tvö skjöl varðandi skilnaðarmál þeirra. Samkvæmt þessum skjölum sagðist hún vera að yfirgefa hann og eftirléti honum allar eigur sínar og forræði yfir dætrum þeirra.