Fuglaflensuveiran hefur borist í sífellt fleiri dýrategundir frá 2020. Þar á meðal eru hundar, kettir og birnir.
Gunnveig Grødeland, prófessor í ónæmisfræði við Oslóarháskóla, sagði í samtali við TV2 að búast megi við því að fólk smitist af fuglaflensu frá öðrum dýrategundum. „Stóra spurningin er hvaða afleiðingar þetta hefur. Í fyrri tilfellum, þá hefur það venjulega verið þannig að fólk smitaðist af veirunni frá fugli, sem bar veiruna, sem þýddi að það fékk stóran skammt frekar langt niður í öndunarfærin,“ sagði hún og bætti við að þetta hafi haft í för með sér að fólk hafi veikst alvarlega og dánartíðnin hafi verið há í þessum tilfellum.
Í Bandaríkjunum sé staðan sú að veiran hafi borist úr spendýrum en ekki fuglum yfir í fólk. Ástæðan fyrir því sé að veiran hafi stökkbreyst.
„Þetta staðfestir það sem við höfum talið síðan við sáum fyrst smit í minkum, það er að veiran hefur stökkbreyst þannig að hún getur borist á milli spendýrategunda. Það var bara tímaspursmál um hvenær fyrsta smitið kæmi upp hjá fólki,“ sagði hún.