Þetta kemur fram á heimasíðu stofnunarinnar. Lestinni verður ekki ætlað að flytja fólk, heldur efni.
En áður en þetta verður að veruleika verður NASA að koma fólki aftur til tunglsins en þar hefur enginn maður stigið niður fæti síðan á áttunda áratugnum. Stefnt er að því að senda fólk til tunglsins 2026 og hefst þá vinna við að koma upp bækistöð þar sem á að vera tilbúin til notkunar 2030.
Líf geimfaranna á tunglinu mun væntanlega líkjast lífinu í Alþjóðlegu geimstöðinni, það er að segja að um langan og strangan vinnudag verður að ræða.
Sviflestin á að létta þeim lífið við að flytja málma og annað sem þeir þurfa að nota til ýmissa hluta. Lestin hefur fengið nafnið Flexible Levitation On A Track (FLOAT) og getur flutt allt að 100 tonn á dag að mati NASA.