fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Pressan

Unga stúlkan sá rautt eftir að nasistar börðu ömmu hennar – Reyndust vera þeim dýrkeypt mistök

Pressan
Miðvikudaginn 1. maí 2024 22:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Zinaida Portnova var ósköp venjulegur unglingur og óvenjulegum tímum í Hvíta-Rússlandi á dögum seinni heimsstyrjaldarinnar. Hún þurfti þó að skilja unglingsárin eftir með hraði í innrás nasista í landið árið 1941.

Tæplega 15 ára þegar hún tók til vopna

Zinaida fæddist árið 1926 í Leningrad. Hún var elsta barn foreldra sinna sem voru af verkamannastétt. Sumarið 1941, þegar innrásin hófst, var Zinaida send ásamt yngri systkinum sínum til ömmu þeirra í bænum Zui í norðurhluta Hvíta-Rússlands.

Foreldrar hennar vonuðust tli þess að innrásin yrði stöðvuð áður en Þjóðverjar kæmust alla leið norður. Þjóðverjar náðu þó að þokast næstu mánuði og í lok júní hafði sovéski herinn tapað um 2,5 milljón hermönnum sem voru ýmist látnir, særðir eða horfnir. Stríðið hafði náð til Zinaida og hún ákvað að gera eitthvað í því.

Þegar þýskir hermenn reyndu að handleggja búfé fjölskyldunnar kom til átaka. Zinaida horfði á ömmu sína beitta ofbeldi og þá var ekki aftur snúið. Hún ætlaði að muna þeim kinnhestinn.

Á svæðinu höfðu ungliðar tekið sig saman og stofnað andspyrnuhreyfingu og Zinaida slóst í för með sér. Hópurinn gekk undir viðurnefninu Ungir hefnendur, og þó margir haldi að hreyfingin hafi verið undirdeild kommúnistaflokksins var hún í raun sjálfstæð.

Zinaidu var falið að dreifa sovéskum áróðri í fjölpósti. Hún fékk einnig leynileg verkefni þar sem hún stal þýskum vopnum og kom til sovéska hersins og eins tók hún að sér njósnir. En það var bara upphafið.

Þetta nægði ekki ungu stúlkunni. Hún lærði á skotvopn og fékk þá að taka þátt í ofbeldisfyllri aðgerðum hreyfingarinnar. Hreyfingin kom í veg fyrir árás Þjóðverja á orkuver á svæðinu, á vatnsdælur og verksmiðjur. Talið er að í þessum átökum hafi hundruð nasista fallið í valinn.

Eitraði fyrir heilli hersveit nasista

Í ágúst árið 1943 drýgði Zinaida mestu hetjudáðina. Hún náði að lauma sér inn í þýskar herbúðir þar sem hún eitraði fyrir hermönnum. Þetta gerði hún með því að þykjast vera aðstoðarkona í eldhúsi. Þannig fékk hún óhindraðan aðgang að eldhúsinu og eitraði matinn. Fjöldi hermanna veiktist í kjölfarið og nokkrir létu lífið.

Grunur beindist fljótt að ungu stúlkunni, enda var vitað að hún væri innfædd. Zinaida kannaðist þó ekkert við sekt sína í yfirheyrslu og til að sanna „sakleysi sitt“ fékk hún sér bita af matnum sem hún eldaði. Þegar hún sýndi engin viðbrögð þá slepptu nasistar henni úr haldi.

Hún hljóp beina leið til ömmu sinnar þar sem hún lagðist fárveik í bælið á meðan amma hennar dældi í hana mysu til að vinna gegn eitruninni.

Þegar Zindaida snéri ekki aftur í eldhúsið daginn eftir föttuðu Þjóðverjar að unga stúlkan hafði leikið á þá. Zinaida varð að fara á flótta. Hennar leið til að halda huldu höfði var að ganga til liðs við skæruliðasveit. Hún skrifaði foreldrum sínum bréf og sagði að með sveitinni yrðu nasistar sigraðir.

Barðist allt til enda

Árið 1944 var Zinaida, þá tæplega 18 ára gömul en hokin af reynslu af vopnuðum átökum, send aftur að herbúðunum sem hún hafði eitrað fyrir. Henni var ætlað að leika aftur á Þjóðverja, lauma sér inn í búðirnar og komast þar yfir hernaðarleyndarmál. Því miður gekk henni ekki eins vel þetta skiptið. Lögreglan hafði hendur í hári hennar og hún var tekin haldi.

Lögregla afhenti hana til nasistanna og unga stúlkan vissi að líf hennar hékk á bláþræði. Eina leiðin til að halda lífi væri örvæntingarfull flóttatilraun. Hún greip í byssu sem hafði verið skilin eftir á borði í herberginu sem hún var yfirheyrð í. Hún skaut Gestapo-liðann sem yfirheyrði hana og tvo öryggisverði til viðbótar. Svo tók hún til fóta.

Hún komst ekki langt áður en Þjóðverjar gripu hana aftur. Hún var í kjölfarið yfirheyrð að nýju, að þessu sinni samhliða hrottalegum pyntingum og í kjölfarið var hún tekin af lífi, mánuði fyrir 18. afmælisdaginn.

Eftir stríðið, árið 1958, var minning stúlkunnar heiðruð þegar hún fékk formlega titilinn „Hetja Sovíetríkjanna“ en hún varð þar með yngsta konan til að hljóta þennan æðsta heiður fyrrum stórveldisins. Síðar fékk hún aðra heiðursnafnbót, orðu Leníns.

Zindaidu er enn minnst í dag fyrir hetjudáðir sínar ásamt öðrum konum sem gripu til vopna í stríðinu til að hefna ódæða.

Horfðust í augu við dauðann

Annað dæmi er til dæmis Marya Oktyabrskaya sem gekk í rauða herinn eftir að maður hennar var tekinn af lífi, þó svo að rauða hernum verði seint kallaður siðaður. Eftir að maður hennar Ilya féll í árás Þjóðverja á Kiev seldi hún allar eigur sínar og keypti skriðdreka. Hún sagði svo hernum að þeir fengju skriðdrekann gegn því skilyrði að hún fengi að aka honum sjálf. Hún skrifaði sjálf til Stalíns til að greina frá þessu skilyrði:

„Maðurinn minn lét lífið við að verja föðurland sitt. Ég sækist eftir hefndum gegn fasista skítnum sem ber ábyrgð á dauða hans sem og dauða sovíeska fólksins sem þessir fasista villimenn pyntuðu.“

Síðan má nefna Roza Shanina, leikskólakennari  sem gerðist leyniskytta og náði að fella 59 nasista á aðeins 10 mánuðum á fremstu víglínu. Hún gerði þetta til að hefna bróður síns sem lést í loftárás.

Lepa Radic lét lífið aðeins 17 ára gömul í átökum við nasista. Hún kom frá Bosníu úr verkamannastétt. Hún var að reyna að bjarga konum og börnum undan SS-sveitum nasista þegar hún var tekinn höndum. Í þrjá daga reyndu nasistar að ná upp úr henni upplýsingum um andspyrnuna með hrottalegum pyntingum. Lepa gaf þeim ekki neitt. Rétt áður en hún var hengd kallaði hún til kvalara sinna: „Ég er ekki svikari fólks míns. Þeir sem þið hafið spurt mig um munu sjálfir stíga fram þegar þeim hefur tekist að þurrka ykkur illmennin út, allt til síðasta manns.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Dularfullir drónar herja á New Jersey – Enginn veit hvaðan þeir koma eða hvers vegna þeir eru þarna

Dularfullir drónar herja á New Jersey – Enginn veit hvaðan þeir koma eða hvers vegna þeir eru þarna
Pressan
Fyrir 2 dögum

Guinness í jákvæðum vanda – Neyðast til að takmarka sölu

Guinness í jákvæðum vanda – Neyðast til að takmarka sölu
Pressan
Fyrir 4 dögum

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ handtekinn – Spreyjaði piparúða á 57 ára gamla konu sem vildi bara ræða við hann

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ handtekinn – Spreyjaði piparúða á 57 ára gamla konu sem vildi bara ræða við hann
Pressan
Fyrir 5 dögum

Morðið á moldríka forstjóranum – Lögregla birtir nýjar myndir, fjölmiðlar misskildu borgarstjóra og Monopoly-seðlar vekja upp spurningar

Morðið á moldríka forstjóranum – Lögregla birtir nýjar myndir, fjölmiðlar misskildu borgarstjóra og Monopoly-seðlar vekja upp spurningar